Framkvæmdir hafnar við Hlíðahverfi
- bæjarstjóri tók skóflustungu að fyrsta áfanga
Fyrsta skóflustungan að nýju íbúðahverfi í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ var tekin í gær. Það kom í hlut Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, að taka skóflustunguna. Hlíðahverfi mun rísa á svæði sem hefur gengið undir nafninu Nikel-svæðið undanfarna áratugi.
Það er BYGG, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf., sem hefur keypt byggingalandið, um 34 hektara lands þar sem hefur verið skipulögð byggð með allt að 485 íbúðum ásamt atvinnuhúsnæði.
Deiliskipulag fyrir hluta byggingarlandsins er þegar samþykkt og gerir ráð fyrir byggingu á samtals 300 íbúðum. Gatna- og holræsagerð hefur verið unnin að hluta til á svæðinu og hægt er að hefja framkvæmdir á hluta lóðanna nú þegar. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir byggingu allt að 185 íbúða til viðbótar.
Í áfanga eitt, sem er Grænalaut 1-31 og Hallalaut 1-15, verða fimm tveggja hæða fjölbýlishús með samtals 48 íbúðum, þetta eru 4 herbergja 100 fm íbúðir. Tvö raðhús með samtals 7 íbúðum, 130 fm hús með bílskúr. Átta parhús þá með 16 einingum þar sem stærð hverra eininga er c.a 170 – 200 fm
og fjórtán einbýlishús sem eru ca. 210 – 250 fm.
Samtals í þessu fyrsta áfanga eru því 86 íbúðir og áætlar Hörður Már Gylfason, framkvæmdastjóri BYGG, að fyrstu kaupendur flytji inn fyrir skólaárið 2018. Mikið líf verði því komið í hverfið fyrir jólin 2018 og það verður klárað 100% með öllum lóðarfrágangi sumarið 2019.
Áfangi tvö í Hlíðahverfi er stærri hluti í fjölbýli eða 170 af 235 í heild. Sumarið 2018 er svo áætlað að fara yfir Skólaveginn og byrja á Efrilaut – Asparlaut.
Áfangi 3 er svo með fleiri stærri fjölbýlishús en deiliskipulag er ekki klárt en vinna er að hefjast við það. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjanesbæ eru áætlað 185-200 íbúðir á því svæði.
Hörður már segir að samtals verði í hverfinu yfir 500 íbúðir og byggingahraði fari auðvitað eftir söluhraða. Áætlun hljóðar upp á 7 til 10 ára ferli ef allt gengur upp og að fullbúið hverfi með öllu verði afhent eftir áratug.