Framkvæmdir hafnar við aðalvöll Keflavíkur
Framkvæmdir við aðalvöll Keflavíkur hófust í gær en völlurinn verður tekinn upp og stækkaður.
Völlurinn var lagður árið 1968 og hefur aldrei verið endurnýjaður. Er því ástand hans orðið bágborið og stenst hann ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til keppnisvalla.
Áætlað er að nýta núverandi gras á æfingasvæði Keflavíkur vestan við Reykjaneshöll.
Skipt verður um undirlag á Keflavíkurvellinum og lagðar hita- og drenlagnir auk vökvunarbúnaðar. Með stækkun vallarins er jafnframt hægt að færa til álagsfleti.
Áætluð verklok eru 31. desember. Forval fór fram og skiluðu sjö verktakar inn gögnum. Gengið var til samninga við lægstbjóðanda sem var Nesprýði ehf. en tilboð fyritækisins hljóðaði upp á 86.011.660 kr. sem er 79% af kostnaðaráætlun.