Framkvæmdir fyrir hundruð miljóna króna í Grindavík
Miklar framkvæmdir verða á árinu í Grindavík, bæði á vegum Grindavíkurbæjar og hins opinbera. Nýverið voru hafnar framkvæmdir á hringtorgi við innkomu í bæinn og eru áætluð verklok í byrjun júní en verktakar eru Hreinn og Þorgeir h/f. Malbikunarframkvæmdir eru í Þorkötlustaðarhverfi og þar verður einnig lögð ný vatnslögn.
Útboð í gatnagerð í Hópshverfi eftir að úthlutun lóða þar er lokið og í beinu framhaldi skipulagning á Vesturhópshverfi og útboð í gatnagerð eftir úthlutun.
Bygging á nýjum leikskóla hefst að útboði loknu og tekist hafa samningar við verktaka,en búið er að samþykkja teikningar af byggingunni en þar var m.a. tekið tillit til tillagna starfsmanna við leikskólann í Lautarhverfi, en þar mun sá nýi rísa.
Áframhaldandi framkvæmdir verða við Grindavíkurhöfn á árinu, rekið verður niður stálþil við Svíragarð með fullnaðarframkvæmd, hafist verður handa við að dýpka og útbúa nýjan viðlegukant fyrir framan fiskverkun Vísis h/f, í smábátahöfn verður klárað að dýpka og verður öll olíuafgreiðsla flutt þangað fyrir smábátana.
Í sumar verður unnið að malbikunar og viðhaldsframkvæmdum skv. áætlun. Eftir mánaðartafir mun Háfell ehf. hefja framkvæmdir á fyrsta áfanga við Suðurstrandaveg í aprílbyrjun fyrir 98 miljónir. Nesvegur eða Reykjanesvegurinn verður einnig á áætlun Vegagerðarinnar og að sögn Hilmars Finnssonar hjá áætlunardeild er hönnunarvinnu að ljúka og verður tilbúin í útboð að hluta til. Lokafrágangur verður á næsta ári, áætlað er að verja 53 miljónum í verkið á þessu ári.
Þá má nefna að Heilsufélagið Bláa-Lónið reisir glæsilegt meðferðarhótel á athafnasvæði Lónsins.
Í lauslegri samantekt er þetta rúmur einn miljarður króna og er þá stuðst við opinberar tölur.
Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar, www.grindavik.is
Mynd: Loftmynd af Grindavík