Framkvæmdir án lántöku
Bæjaryfirvöld í Sandgerði hafa hug á að ráðast í stækkun á þjónustubyggingu Miðhúsa nú á árinu. Bæjarráð Sandgerðis hefur falið bæjarstjóra að leggja fram breytingar á fjárhagsáætlun 2009 í því skyni að ná fram markmiðum um hagræðingu en um leið efla atvinnu í bæjarfélaginu með átaksverkefnum á sviði framkvæmda og viðhalds. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða bæjarstjóðs breytist ekki vegna þessa þar sem ríkið endurgreiðir virðisaukaskatt. Ekki er heldur reiknað með lántökum til framkvæmdanna.
Lagt er til að byggingarfulltrúa verði falið að gera stækkun Miðhúsa tilbúna til útboðs eigi síðar en í lok sumars. Gróflega áætlað gæti kostnaður við verkið numið 28 milljónum króna og hefur bæjarfélagið fengið 8 milljón króna styrk í verkefnið frá ríkinu.
Önnur verkefni eru einnig í sigtinu því meirihluti bæjarstjórnar hefur lagt til að ráðist verði í aukið viðhald að Garðvegi 1, þar sem Fræðasetrið er til húsa. Áætlaður kostnaður þar er um 10 milljón króna. Svipuð upphæð mun svo vera áætluð í yfirlögn á Hlíðargötu.
Sjá einnig í fundargerð bæjarráðs hér
---
VFmynd/elg - Frá Sandgerði