Framkvæmdir að hefjast við Hljómahöllina
Fyrsta skóflustunga að Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, fer fram næstkomandi laugardag og hefst hátíðleg athöfn með tónleikum í Stapa kl. 14:00.
Athöfnin markar upphaf framkvæmda við Hljómahöllina sem er endurbygging Stapans og nýbygging fyrir Poppminjasafn Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Reykjanesbær hefur falið Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. framkvæmdina en gert er ráð fyrir því að Hljómahöllin verði formlega tekin í notkun haustið 2009. Á heimasíðu Reykjanesbæjar segir að með framkvæmdinni sé áhersla lögð á metnað í tónlistarsköpun og tónlistarflutningi í Reykjanesbæ og Tónlistarskóli Reykjanesbæjar fái húsnæði við hæfi. Um kostnað við framkvæmdina segir á síðu bæjarins að hann sé sambærilegur við byggingu eins grunnskóla.
Stefnt er að því að skapa aðstöðu til háskólamenntunar í Hljómahöllinni og mynda þar jafnframt miðju tónlistarkennslu, tónlistarkynninga og varðveislu popp- og rokktónlistarsögu Íslendinga sem skapar aukin atvinnutækifæri í sköpunar- og afþreyingariðnaði.
Áhersla verður lögð á að gera aðstöðu Hljómahallarinnar að aðdráttarafli fyrir innlenda og erlenda áhugamenn um tónlist og með tengingu tónlistarskóla og sýningaaðstöðu skapast frábær aðstaða fyrir tónlistarviðburði.
Poppminjasafn Íslands mun hafa höfuðstöðvar í Hljómahöllinni en hægt verður að reka félagsheimilið Stapa áfram í núverandi mynd þar sem bæjarbúar geta komið saman á góðri stund.
Tölvumynd af fyrirhugaðri byggingu