Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdir á fullu við fimmtíu milljarða kr. gagnaver
Þriðjudagur 29. september 2009 kl. 17:30

Framkvæmdir á fullu við fimmtíu milljarða kr. gagnaver


Framkvæmdir við fimmtíu milljarða króna raffænt gagnaver Verne Global á Ásbrú, gamla varnarsvæðinu í Keflavík, eru í fullum gangi. Mörg hálaunastörf fyrir Íslendinga verða til þegar starfsemin fer í gang innan skamms tíma. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að þetta rafræna gagnaver muni m.a. nýta íslenska rokið til að kæla flókin tölvubúnað en stofnun þess muni hafa mikla og margvíslega þýðingu og ekki aðeins fyrir nær samfélagið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Forráðamenn íslensk bandaríska fyrirtækisins, Verne Global sem er meðal annars í eigu Novators, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, kynntu gang mála í uppbyggingu þess fyrir fréttamönnum í dag. Mörg þúsund fermetrar húsbygginga varnarliðsins eru í endurbyggingu, verða stækkaðar og fá nýtt hlutverk. Þær munu hýsa gríðarmikinn búnað, risavaxin tölvusalarkynni og rafafls-varastöðvar auk annars sem tengist starfsemi gagnaversins sem verður keyrt áfram með grænni, íslenskri jarðvarma-orku. Í vöruhúsi og stórverslun Varnarliðsins forðum, Navy Exchange verða í náinni framtíð stórir salir fullir af flóknum tölvubúnaði.



Fyrirtækið hefur gert samninga við stór íslensk fyrirtæki eins og Landsvirkjun um orkuöflun sem og fleiri nauðsynlega þjónustuaðila. Íslenskir aðalverktakar sjá um byggingaframkvæmdir með um fimm tugi starfsmanna á svæðinu. Forstjóri Verne holding vonast til að geta greint frá fyrsta viðskiptavininum á næstunni en báðir aðilar eru að ljúka samningum við íslensk stjórnvöld.

Árni Sigfússon segir að þetta sé ekki lengur falleg hugmynd heldur sé verkefnið komið vel af stað og eigi eftir að verða svæðinu til hagsbóta og skapa mörg fjölbreytt störf. „Þessi gerð af hátækni mun leiða til nýrrar íslenskrar fagþekkingar. Hún mun nota græna orku og verða mikill styrkur fyrir atvinnulífið, ekki aðeins á Reykjanesi heldur landinu öllu“.

„Við erum spennt að sýna Íslendingum hvað við erum að fara að gera hérna. Aðstæður eru þær allra bestu í heiminum fyrir svona starfsemi og við hlökkum til að hefjast handa. Framkvæmdir við stór húsakynni eru í fullum gangi og hér eru um 50 starfsmenn frá Íslenskum aðalverktökum og aðrir fimmtíu eru við önnur störf við undirbúning starfseminnar,“ sagði Jeff Monroe, forstjóri Verne Global.

Meðal þess sem kemur sér vel fyrir gagnaverið er kælikerfið sem er mikilvægt fyrir allan tölvubúnaðinn. Í gögnum Verne er það kallað „free cooling“ en þar nýtist íslenska rokið og veðráttan hér á landi mjög vel. Jeff sagði að meðal mikilvægra atriða í staðsetningunni hér á Suðurnesjum væri nálægt við alþjóðlegan flugvöll. Þá lofaði hann allt samstarf sem fyrirtækið hefur átt við íslenskar stofnanir og aðila og nefndi meðal annars Landsvirkjun, Landsnet, Mannvit og Reykjanesbæ.


Séð inn í gömlu stórverslun Varnarliðsins, Navy Exchange. Þar munu í framtíðinni verða stórir salir, fullir af flóknum tölvubúnaði. Að neðan má sjá Árna Sigfússon á tali við starfsmenn ÍAV og Verne Global. Á efstu myndinni er Árni með Jeff Marone, forstjóra Verne Global.VF-myndir/pket