Framkvæmdir á fullt með vorinu
Forráðamenn álrisans Century Aluminum segja að stefnt sé að því að hefja fullar framkvæmdir við álverið í Helguvík á ný og að framleiðsla á áli muni hefjast þar 2012. Haft er eftir Mike Bless, fjármálastjóra fyrirtækisins, að framkvæmdir muni hefjast af fullum krafti í vor. Þetta sagði Bless á ráðstefnu með fjárfestum að því er fram kom á mbl.is
Hann segir að frá því framkvæmdir hefjast taki það álver eins og í Helguvík um 30 mánuði að hefja framleiðslu. Hann vonast hins vegar til þess, miðað við þær framkvæmdir sem nú þegar sé búið að leggjast í, að framleiðslan muni hefjast í ársbyrjun 2012. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.
Stefnt er að því að reisa álverið í fjórum áföngum en upphaflega átti að gera það í tveimur stórum áföngum en í kjölfar aðstæðna þótti það hagkvæmara fyrir alla aðila að gera það í fjórum en heildarafkastagetan mun verða 360.000 tonn.
Framkvæmdir voru stöðvaðar fyrir um ári þegar mjög dró úr eftirspurn eftir áli auk þess sem álverð hríðlækkaði í kjölfar efnahagskreppunnar. Bless segir að frá því í fyrra hafi aðeins minniháttar framkvæmdir verið í gangi á svæðinu.
Hann segir að við árslok verði Century Aluminum búið að setja 100 milljónir dala í framkvæmdirnar, en heildarkostnaðurinn nemur 600 milljónum dala. Fyrirtækið er sagt íhuga nokkrar fjármögnunarleiðir, t.d. sé verið að skoða hvort það eigi að fá inn fjárfesti sem eignast hlut í álverinu.
Bless segir að fjármögnunin sé ekki aðal áhyggjuefni fyrirtækisins. Menn hafi fremur áhyggjur af tímasetningu á orkuöfluninni.
Stefnt er að því að álverið í Helguvík verði eina álbræðsla heims sem gengur alfarið fyrir jarðhita.