Framkvæmdaþing í Reykjanesbæ
Af þeim 223 einbýlishúslóðum sem úthlutað hefur verið að undanförnu í Reykjanesbæ, eru 88 lóðahafar búsettir utan bæjarins og hyggjast flytja í bæinn. Þetta er nær 40% lóðahafa. Flestir þeirra koma frá Reykjavík en annars koma umsóknir víða að, m.a. frá Danmörku, Lúxemburg, Garðabæ, Kópavogi, Garði, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Sandgerði, Vestmannaeyjum, Vogum, Álftanesi, Bakkafirði, Blönduósi, Árborg, Akureyri, Dalvík, og Neskaupsstað.
Komu þessar upplýsingar fram í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gærkvöldi.
Nýlega var dregið úr umsóknum um 77 lóðir í Dalshverfi II en eins og áður fengu færri en vildu. Að sögn Árna er verið að skoða það hvernig hægt verði að mæta þeim sem eftir sátu, t.d. komi til greina að þær umsóknir hafi forgang við næstu úthlutun í Stapahverfi.