Framkvæmdasjóður aldraðra: 22 milljónir króna til Suðurnesja
Framkvæmdasjóður aldraðra úthlutar 22 milljónum króna til fjögurra verkefna á Suðurnesjum. Verkefnin eru í Sandgerði, Garði og tvö í Reykjanesbæ. Þetta staðfestir Lára Björnsdóttir skrifstofustjóri Félags- og tryggingamálaráðuneytisins í samtali við Víkurfréttir. Afgreiðslu tveggja umsókna var frestað vegna ónógra gagna. Víkurfréttir fjölluðu í gær um úthlutun á um einum milljarði króna úr Framkvmdasjóði aldraðra og veltu upp þeirri spurningu hvort ekki kæmu fjármunir til hjúkrunarrýma á Suðurnesjum.
Vegna fréttar Víkurfrétta ,,Ekki króna í hjúkrunarrými á Suðurnesjum?” sem birtist á vefsíðu miðilsins þann 23. apríl vill félags- og tryggingamálaráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:
„Framkvæmdasjóði aldraðra bárust í ár alls sex umsóknir frá aðilum á Suðurnesjum. Fjórar þeirra voru samþykktar og fengu úthlutað nú. Afgreiðslu tveggja umsókna var frestað vegna ónógra gagna.
Auglýst var eftir umsóknum um framlög úr sjóðnum árið 2009 í desember sl. Umsóknarfrestur var til 10. janúar sl. Samstarfsnefnd um málefni aldraða samþykkti tillögur um úthlutun og kynnti þær ráðherra í upphafi vikunnar. Úthlutanir ráðherra eru í samræmi við tillögur nefndarinnar. Í dag er unnið að því ljúka við að svara aðilum sem sóttu um framlög úr sjóðnum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Þeirri hugmynd hefur verið velt upp á innrétta hjúkrunarrými á Nesvöllum sem tímabundna lausn. Lára Björnsdóttir staðfesti að þau mál væru í vinnslu milli ráðuneytisins og sveitarfélaga, þ.e. hin svokallaða leiguleið. Ráðuneytið hafi gefið út viðmiðunarfjárhæð sem sveitarfélögunum hafi fundist of lág. Samstarfshópur nokkurra sveitarfélaga hefur unnið að því að koma með gagntilboð til ráðuneytisins og sagði Lára að ríki og sveitarfélög væru að nálgast í sínum viðræðum. Þau mál hafi hins vegar ekki verið hægt að klára fyrir kosningar en næstu skref yrðu stigin innan hálfs mánaðar. Lára sagði metnað sveitarfélaganna mikinn og vilja til að ná farsælli lausn til framtíðar í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða.