Framkvæmdagleði í Vogum
Ekkert lát er á framkvæmdum í Vogum. Framkvæmdir á hafnarsvæðinu hafa verið fyrirferðarmiklar en einnig er mikið lagt í frágang eldri gatna og byggingu nýrra. Tólf ný raðhús munu rísa í Vogum á næstu vikum og það stendur til að úthluta fleiri byggingarlóðum í maí, vegna mikillar eftirspurnar.Þessa dagana er verið að malbika Stapaveginn og vinna við göngustíginn meðfram veginum. Yfirborðsfrágangur bíður þar til unglingavinnan byrjar í vor, þ.e. gróðursetning og tyrfing. Miklar sigdældir hafa myndast meðfram gangstéttunum við Vogagerði, en nú hefur verið komið í veg fyrir frekara sig. Malbik og gangstéttir verða fjarlægðar og þegar Landsíminn og Hitaveitan hafa lokið framkvæmdum sínum, verður malbikað uppá nýtt og nýjar gangstéttir lagðar. Jóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri í Vogum, sagðist vonast til að þeim framkvæmdum lyki nú í júní.Að sögn Jóhönnu verður fljótlega hafist handa við viðgerðir á vatnslögnum á mótum Aragerðis og Tjarnargötu. „Þegar því er lokið, verður malbikað yfir götuna og væntanlega skipt um gangstéttir eins og í Vogagerðinu ásamt öðrum yfirborðsfrágangi. Stefnt er á að ljúka framkvæmdum í maí eða júní.“Af öðrum framkvæmdum er það að frétta að það stendur til að lagfæra Hafnargötuna og ljúka byggingu tveggja nýrra gatna, Hvammsgötu og Hvammsdals. „Í júní verður væntanlega byrjað að byggja tólf raðhús við Hvammsgötu en mikil ásókn er í byggingarlóðir. Við munum taka kúfinn af í lok maímánaðar með viðbótarúthlutunum“, segir Jóhanna og bætir við að hafnarsvæðið hafi þegar tekið miklum stakkaskiptum. „Búið er að stækka og jafna svæðið og gera það tilbúið fyrir nokkrar byggingarlóðir. Framkvæmdum við hafnarsvæðið á að ljúka nú í sumar.“