Framburður íslenska skipstjórans talinn trúverðugur
Skerið, sem nóta og flotvörpuveiðiskipið Guðrún Gísladóttir KE steytti á og sökk við í Lófót, var ekki merkt inn á sjókort. Skipstjórinn sagði við sjópróf í Noregi í gær að hann hefði verið í góðri trú um að hann væri að sigla á réttri slóð þegar skip hans strandaði.Sjóprófin voru haldin í bænum Svolvær í Lófót og hófust þau snemma í gærmorgun á því að Sturla Einarsson greindi frá því hvað hefði gerst. Í samtali við fréttamann Útvarps sagðist hann hafa undirbúið siglinguna eftir bestu getu innan norska skerjagarðsins til bæjarins Leknes þar sem landa átti 870 tonnum af síldarflökum. Þetta var í annað sinn á örfáum vikum sem Sturla sigldi skipinu þangað en í þetta sinn var ný leið valin.
Sturla sagðist hafa kannað sjókort gaumgæfilega og rætt við hafsögumenn á Lófótsvæðinu áður en hann ákvað leiðina sem farið skyldi. Hann sagðist hafa verið ákveðinn í að fara hvergi um svæði þar sem dýpi undir kili skipsins fullfermdu væri minna en 14 metrar og taldi skipið á slíkri siglingaleið þegar það strandaði. Þá var Guðrún Gísladóttir á um 6 sjómílna ferð.
Sturla lagði fram sjókort máli sínu til stuðnings í sjóréttinum í dag og fram kemur í norskum fjölmiðlum að framburður hans hafi verið mjög trúverðugur og að fas hans hefði borið vitni um að þar færi rólyndur og þaulvanur skipstjórnarmaður.
Sturla sagðist hafa kannað sjókort gaumgæfilega og rætt við hafsögumenn á Lófótsvæðinu áður en hann ákvað leiðina sem farið skyldi. Hann sagðist hafa verið ákveðinn í að fara hvergi um svæði þar sem dýpi undir kili skipsins fullfermdu væri minna en 14 metrar og taldi skipið á slíkri siglingaleið þegar það strandaði. Þá var Guðrún Gísladóttir á um 6 sjómílna ferð.
Sturla lagði fram sjókort máli sínu til stuðnings í sjóréttinum í dag og fram kemur í norskum fjölmiðlum að framburður hans hafi verið mjög trúverðugur og að fas hans hefði borið vitni um að þar færi rólyndur og þaulvanur skipstjórnarmaður.