Framboð íbúðarhúsnæðis ekki í takt við þarfir Grindvíkinga
„Vísbendingar eru um að framboð íbúðarhúsnæðis sé ekki í takt við þörfina, þannig að umframeftirspurn kemur til með að hafa afleidd áhrif meðal annars á vaxtakjör og þenja húsnæðismarkaðinn, sem leiðir að öllum líkindum til verðhækkunar á íbúðarhúsnæði um land allt. Það er því til mikils að vinna fyrir alla Íslendinga að unnið sé vel að málefnum Grindavíkur.“ Þetta kemur fram í pistli sem bæjarstjórn Grindavíkur sendi frá sér í síðustu viku.
Mikil vinna er í gangi og hefur verið frá rýmingu í húsnæðisteymi Grindavíkur og segist bæjarstjórnin eiga starfsmönnum húsnæðisteymisins mikið að þakka. „En betur má ef duga skal. Það er mikið og stórt verkefni að koma öllum íbúum Grindavíkur í skjól, heima í Grindavík eða annarsstaðar sem íbúar kjósa. Í nóvember voru rúmlega 1.200 heimili rýmd og hefur gengið misvel að leysa vanda þeirra heimila og gefa upplýsingar til kynna að ekki hafi fengist viðunandi úrlausn fyrir allan hópinn þar sem framboð fasteigna á þeim sveitarfélögum sem Grindvíkingar sækja í annar ekki eftirspurninni. Aðgerðir yfirvalda hafa til dæmis verið kaup fasteigna í gegnum leigufélög, leigutorgið, fyrirhuguð uppkaup og sértækur húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga,“ segir bæjarstjórnin í pistli sínum.
Bæjarstjórn ásamt húsnæðisteymi hefur ítrekað áréttað að ákjósanlegast sé að framlengja sértækan húsnæðisstyrk til 31. desember 2024 til samræmis laga um uppkaup fasteigna og veita þannig íbúum svigrúm til að ráða ráðum sínum. Mögulega hefur það áhrif á sölu fasteigna í Grindavík og hversu margir kjósa að halda heimili sínu í Grindavík.
„Við teljum bankastofnanir sem hafa veitt Grindvíkingum frystingu á afborgunum og vöxtum hafa sýnt okkur mikla velvild og samhug og vonum að boðið standi til ársloka. Þannig haldist það í hendur við það svigrúm sem veitt er í lögum um uppkaupin fyrir þá íbúa sem hafa ekki hug á sölu eða vilja rýmri tíma til að taka ákvörðun,“ segir í pistlinum.
Fulltrúar Grindavíkurbæjar hafa komið fram með fjölmargar tillögur að lausnum, svo sem að ríkið taki á leigu fjölbýli sem mögulega væri hægt að framleigja Grindvíkingum, kaupum á smáhýsum og einingahúsum sem hægt væri að selja eða leigja íbúum líkt og gert var í málefnum Vestmannaeyja. Þá hefur áhugi og boð um aðstoð við uppbyggingu slíkra framkvæmda hafa komið frá ýmsum sendiherrum norðurlandanna á Íslandi.
„Húsnæðismarkaður á Íslandi er í miklu ójafnvægi og útlit er fyrir skort á íbúðarhúsnæði á næstu misserum sem er áhyggjuefni allra landsmanna, ekki bara Grindvíkinga. Verkefnið er okkar allra, þjóðin og við Grindvíkingar erum og verðum að vera í þessu saman,“ segir bæjarstjórn Grindavíkur.