Fraktflutningavél rann út af braut á Keflavíkurflugvelli
Boeing 737 flugvél frá Bláfugli rann út af akbraut þegar vélin var að keyra að flugvélastæði á Keflavíkurflugvelli í morgun. Vélin er á vegum DHL hraðflutningafyrirtækisins og er með varning frá því. Hún lenti rétt fyrir klukkan átta í morgun en síðasti áfangastaður hennar var í Englandi áður en hún kom til Keflavíkur.
Ekki hafa fengist upplýsingar hvers vegna flugvélin rann út af akbrautinni en hún stöðvaðist með nefhjólið sokkið í jarðveginum utan akbrautar sem liggur að þjónustusvæðinu skammt frá flugskýlum Icelandair. Ekki er vitað hversu miklar skemmdir kunna að vera á nefhjóli en hluti afturhjólabúnaðar vélarinnar er einnig utan brautar. Tveir flugmenn voru í vélinni og sakaði þá ekki. Menn frá rannsóknarnefnd flugslysa voru mættir í bítið til að rannsaka atvikið.