Fræðsludagur um lungu og lungnasjúkdóma
Laugardaginn 31. janúar var haldinn fræðsludagur á vegum Suðurnesjadeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Um 50 einstaklingar tóku þátt í fræðsludeginum sem haldinn var í Kirkjulundi, Keflavíkurkirkju, frá kl. 9-15. Fyrirlesarar dagsins voru Ólafur Baldursson lungnalæknir og Rósa Jónsdóttir lungnahjúkrunarfræðingur. Meðal þess efnis sem tekið var fyrir var astmi, langvinn lungnateppa (COPD), hjúkrun lungnasjúklinga, öndunarbilun, reykleysismeðferð, súrefnismeðferða og Bipap öndunarvélar. Þess má geta að innan skamms verður farið að nota Bipap öndunarvél á HSS í meðferð lungnasjúklinga og gafst þar með mörgum tækifæri til þess að kynna sér þetta tæki. Lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline var með sýningarsvæði þar sem þátttakendum gafst tækifæri til þess að kynna sér helstu lyf (umbúðir þeirra og notkunar möguleika), hjálpartæki sem og greiningartæki er gagnast geta við hjúkrun og lækningu lungnasjúklinga.
Skipuleggjendur voru sammála um að lungnadagurinn hefði heppnast einstaklega vel og vildu þakka það góðum vilja þeirra sem aðstoðuðu við undirbúning sem og góðri aðstöðu í Kirkjulundi.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Frá fræðsludeginum í Kirkjulundi.