Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Frábærar hugmyndir á frumkvöðlakynningu
Þriðjudagur 13. júlí 2004 kl. 16:53

Frábærar hugmyndir á frumkvöðlakynningu

Svo gæti farið að mikil ferðamannamiðstöð risi á Suðurnesjum á næstu árum.

Þessi hugmynd kom fram á kynningarfundi sem þátttakendur á frumkvöðlanámskeiði 88-Hússins stóðu fyrir í dag.

Hópurinn hefur unnið hörðum höndum síðustu vikur við að setja saman hugmyndir um hvernig efla megi ferðamannaþjónustu á svæðinu. Þær voru í dag lagðar fyrir hóp framámanna og –kvenna af Reykjanesi og fengu frábærar móttökur.

Verkefnið bar yfirskriftina „Reykjanesbær, fyrsti og síðasti áfangastaðurinn.“ Þátttakendur höfðu gert könnun meðal ferðamanna í bænum og fengið þar upplýsingar um hvað þeim þætti vanta í bæinn.

Út frá þeim upplýsingum og frekari rannsóknum settu þau saman drög að alhliða ferðamannamiðstöð, ICE INFO. Þar gætu ferðamenn sótt alla þjónustu, m.a. rútusamgöngur, ferðaskrifstofur og upplýsingar um nánasta umhverfi og landið í heild sinni.

Krakkarnir höfðu þegar viðrað hugmyndina við fyrirtæki á svæðinu sem voru mjög hrifin.

Fundargestir í dag, sem voru m.a. frá Reykjanesbæ, og ferðamálasamtökunum sögðu hugmyndina frábæra og vel staðið að vinnu og kynningu. Þeir hugðust skoða málið ofan í kjölinn og sjá hvað hægt væri að gera og koma málinu til réttra aðila.

Hópurinn sem stóð að sýningunni samanstendur af fimm ungmennum sem áttu það sammerkt að vera atvinnulaus. Þau voru mjög ánægð að kynningu lokinni. „Þetta er búið að vera mjög gaman og við erum búin að læra mikið á þessu námskeiði. Við erum búin að kynnast Reykjanesi á nýjan hátt því að maður vissi ekki hvað væri mikið að sjá þó við höfum búið hér í mörg ár.“

Þau fá nýtt verkefni strax á morgun, en í því munu þau reyna að bregða nýju ljósi á Reykjanesbæ sem jólabæ og halda áfram því góða starfi sem þar hefur verið unnið á undanförnum árum.

María Rut Rafnsdóttir er leiðbeinandi á námskeiðinu, sem er samstarfsverkefni Reykjanesbæjar og atvinnumálaráðgjafa SSS. Hún var að vonum ánægð með árangurinn og stolt af hópnum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024