Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagurinn þrettándi er í dag
Föstudagur 13. nóvember 2009 kl. 09:38

Föstudagurinn þrettándi er í dag


Í dag er föstudagurinn 13. nóvember. Hjátrú tengd föstudeginum þrettánda er meðal útbreiddustu atriða af því tagi í heiminum í dag.

Á ensku kallast þessi ótti paraskevidekatriaphobia og er tengt óttanum við töluna þrettán eða triskaidekaphobia. Hugtakið var sett fram af sálfræðingnum Donald Dossey sem sérhæfir sig í að meðhöndla fólk með órökrænan ótta. Að hans sögn læknast menn af óttanum um leið og þeir geta borið orðið fram.

Og þá er bara að byrja að æfa sig:  para- skev- ide – katria - phobia. Náðuð þið þessu?

Föstudagurinn þrettándi verður einu sinni til þrisvar sinnum á ári. Á þessum degi eru margir svo óttaslegnir að þeir mæta ekki til vinnu og margir geta ekki hugsað sér að halda brúðkaup þennan dag. Í sumum borgum er þrettándu breiðgötu sleppt. Í Sacramento eru gatnamót þar sem þrettánda stræti sker þrettándu breiðgötu. Engum sögum fer þó af því að umferðarslys séu algengari þar en annars staðar. Þekkt er að í sumum hótelum og öðrum byggingum sé þrettándu hæðinni sleppt, það er að segja á eftir tólftu hæðinni kemur sú fjórtánda. Vitaskuld er fjórtánda hæðin þó í raun sú þrettánda.

Ef þrettán manns setjast saman við kvöldverðarborð er sagt að þeir muni allir deyja innan árs. Þessu trúa sumir Hindúar til dæmis. Í síðustu kvöldmáltíðinni voru þrettán menn samankomnir. Einn þeirra sveik Jesú Krist sem síðan var krossfestur á föstudegi en föstudagar voru aftökudagar Rómverja til forna. Sömuleiðis voru menn gjarnan teknir af lífi með hengingu á föstudegi í Bretlandi.

Ef þú þorir ekki út úr húsi í dag, þá getur þú alltjént duddað þér við að lesa allt um þessa hjátrú á Vísindavefnum, sjá hér: http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=4999

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024