Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forvarnarheimsókn forsetans til Suðurnesja
Forsetahjónin fengu útskorna kríu úr tré og lopavettlinga í heimsókninni til Sandgerðinga og Garðmanna.
Miðvikudagur 31. október 2012 kl. 14:14

Forvarnarheimsókn forsetans til Suðurnesja

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Dorrit Moussaieff heimsóttu þrjá skóla á Suðurnesjum í dag í tilefni forvarnardagsins.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Dorrit Moussaieff heimsóttu þrjá skóla á Suðurnesjum í dag í tilefni forvarnardagsins.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Dorrit Moussaieff heimsóttu þrjá skóla á Suðurnesjum í dag í tilefni forvarnardagsins. Forsetahjónin hófu heimsókn sína í Grunnskóla Sandgerðis þar sem þau áttu stund með forráðamönnum Sandgerðinga og Gerðaskóla og nemendum 9. bekkja beggja skóla. Því næst lá leið þeirra í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og loks í Myllubakkaskóla í Keflavík.

Fulltrúar nemenda, Anna Karen Guðmundsdóttir, Karolina Krawczuk og Jón Þór Jónsson Hansen færðu forsetanum að gjöf úrskorna kríu úr tré eftir Sigurð Eiríksson í Norðurkoti og forsetafrúin fékk lopavettlinga. Forsetinn þakkaði fallega gjöf og sagði frá góðum árangri í forvörnum en áfengisneysla og reykingar hafa minnkað mjög mikið á undanförnum árum en forvarnardagurinn var settur í gang á sínum tíma að hans frumkvæði. Hann fékk sveitarfélögin, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, UMFÍ, Reykjavíkurborg, skátana og háskólana í lið með sér í verkefninu. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum en rannsóknir hafa sýnt að ungmenni sem lenda í mikilli áfengisneyslu leiðast oft út í neyslu fíkniefna í framhaldinu.

„Það er mjög mikilvægt að fólk byrji ekki að drekka áfenga drykki fyrir 18 ára aldur. Þá sýna rannsóknir að miklu minni líkur eru á því að fólk leiðist út í fíkniefnaneyslu. Byrji krakkar miklu fyrr eru hættan miklu meiri,“ sagði forsetinn.

Fullt var út úr dyrum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þegar Ólafur Ragnar og föruneyti mættu þangað. Ætla má að um 400-500 nemendur og starfsfólk hafi verið í samkomusal skólans og hlustað á forsetann fjalla um þetta mikilvæga málefni. Í ár eru framhaldsskólar heimsóttir í annað sinn af tilefni forvarnardagsins. Nemendur FS hlustuðu af athygli á ræðu forsetans og kom hann víða við. Hann sló einnig á létta strengi og virtist ræða hans hafa hitt vel í mark meðal nemenda skólans. Ólafur Ragnar og Dorrit gáfu sér svo góðan tíma í myndatökur með nemendum að ræðuhöldum loknum.

Lokaviðkomustaður forsetans var Myllubakkaskóli og þar fékk hann afar góðar viðtökur. Nemendur skólans tóku vel á móti forsetahjónunum sem gáfu sér góðan tíma til að heilsa upp á unga nemendur. Stúlknakór skipaður eldri nemendum skólans söng lagið Imagine eftir John Lennon fyrir forsetann og gesti. Ólafur ræddi við nemendur í 9. bekk Myllubakkaskóla og benti þeim á mikilvægi þess að lifa heilbrigðu líferfni, stunda íþróttir eða aðrar tómstundir og verja tíma með fjölskyldunni. Ólafi og Dorrit var að lokum færð rós að gjöf frá einni ungri snót í Myllubakkaskóla sem féll einkar vel í kramið hjá Dorrit sem famaði hana Eriku litlu í bak og fyrir.

Í máli Ólafs Ragnars í öllum heimsóknunum kom fram að íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Hann fjallaði mikið um þann þátt í heimsóknunum í dag og sagði að hann hafi heyrt það hjá krökkunum að þau vilji vera meira með foreldrunum fyrir utan skólatíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá sýna einnig niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum.  Ólafur Rafnsson, forseti Íþróttasambands Íslands fylgdi forsetahjónunum í dag og flutti tölu á öllum stöðum þar sem hann benti á þessa staðreynd.

Sjá fleiri myndir frá forsetaheimsókninni í ljósmyndasafni hér.

Viðtöl í Vef-TV koma síðar í dag við forsetann og nemendur í Myllubakkaskóla.

Forseti Íslands fékk hlýjar móttökur í Myllubakkaskóla í morgun.

Forsetahjónin við komuna í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Kristján Ásmundsson, skólameistari tók á móti þeim. VF-myndir/pket og jjk.