Forvarnardagur Arna haldinn á laugardaginn
Forvarnardagurinn 2018 verður haldinn í Arnarhreiðrinu á Ásbrú laugardaginn 9. júní á milli kl. 11:30 og 16. Forvarnardagur Arna er haldinn árlega og snýst um að fræða vélhjólafólk um öryggismál hjólamanna. Sjúkraflutningamenn frá Brunavörnum Suðurnesja sýna viðbrögð við komu að slysi bifhjólamanns, þá verður farið yfir helstu þætti sem skipta máli varðandi öryggismál hjólamanna og svo verður reynt á ökuhæfni þeirra í hjólaþrautum.
Lögreglan og Brunavarnir Suðurnesja, Slysavarnardeildin Dagbjörg og Björgunarsveitin Suðurnes taka þátt í deginum og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos í boði Atlantsolíu og hefst grillið kl. 11:30.
Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja var stofnaður 27. apríl 2001 af 46 áhugamönnum um mótorhjól og eru 421 útgefin félagsnúmer. Klúbbhúsið Arnarhreiðrið er á Ásbrú í Reykjanesbæ á Þjóðbraut 772 en klúbburinn hefur það að markmiði að auka öryggi hjólafólks og að sýna gott fordæmi.