Forval vegna verslunarreksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Kynningarfundur vegna forvals um verslunarrekstur og breytinga í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður á Grand hóteli í Reykjavík fimmtudaginn 16. september nk. kl. 13:30. Forvalsgögn verða þar afhent. Fundurinn er opinn þeim er áhuga hafa á starfsemi flugstöðvarinnar og fulltrúar fjölmiðla eru einnig boðnir velkomnir.
Frestur til að skila inn umsóknum í forvalinu rennur út 15. október og gert er ráð fyrir því að meta og afgreiða umsóknir fyrir 1. desember 2004.
Spennandi tækifæri í verslun og viðskiptum
Forvalið tekur til starfsemi bæði í eldri hluta flugstöðvarbyggingarinnar og þeim nýja, sem og í móttöku farþega utan fríhafnarsvæðisins. Þetta eru afar spennandi möguleikar fyrir þá sem fást við verslun og viðskipti, einkum þegar haft er í huga að farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgar verulega ár frá ári og velta í verslun í flugstöðinni eykst að sama skapi.
• Heildarvelta í verslun á brottfararsvæðinu var 2,9 milljarðar króna árið 2003 og verður að líkindum um 3,3 milljarðar króna í ár.
• Um 1,4 milljónir farþega fóru um flugstöðina árið 2003 og gera má ráð fyrir að farþegafjöldinn verði 1,6 milljónir í ár. Því er spáð að 2,8 milljónir farþega fari um flugstöðina árið 2015 og 4,4 milljónir árið 2025.
• Ætla má að um hálf milljón manna komi í flugstöðina árlega til að taka á móti farþegum úr flugi.
Endurtekið forval
Efnt var til forvals um verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 en ekki var unnið úr umsóknum þá vegna þess að þáverandi eigendur Íslensks markaðar kærðu framkvæmd forvalsins til samkeppnisyfirvalda og fóru síðar með málið fyrir dómstóla. Hæstiréttur Íslands staðfesti fyrr á þessu ári að löglega hefði verið staðið forvalinu og mál skipuðust síðan þannig í kjölfar dómsins að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. (FLE hf.) keypti Íslenskan markað hf. (ÍM) og tók við rekstri félagsins.
Ákveðið var að endurtaka forvalið í ljósi þess að liðin eru þrjú ár frá upphaflegu forvali og aðstæður í flugstöðinni hafa breyst verulega. Fyrri umsækjendur geta endurnýjað umsóknir sínar en jafnframt gefst öðrum kostur á að sækja um.
Fyrir liggur að FLE hf. muni aðeins reka Íslenska markað tímabundið enda nær forvalið til allra vöruflokka sem seldir eru í ÍM.
Fríhöfnin ehf. tekur við verslunarrekstrinum
Ákveðið er að stofna sjálfstætt dótturfélag Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., Fríhöfnina ehf., og færa forræði verslunarrekstrar FLE hf. þangað í byrjun árs 2005. Ráðinn verður framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf. og Íslensks markaðar en gert er síðan ráð fyrir að rekstur ÍM verði lagður af þegar nýir verslunarrekendur hefja starfsemi í flugstöðinni í kjölfar forvalsins nú.
Fasteignarekstur flugstöðvarinnar mun áfram heyra undir FLE hf.