Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fóru yfir stöðu mála varðandi húsnæði fyrir heimilislaust fólk í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 31. október 2023 kl. 10:14

Fóru yfir stöðu mála varðandi húsnæði fyrir heimilislaust fólk í Reykjanesbæ

Velferðarráð Reykjanesbæjar fór yfir stöðu mála varðandi húsnæði fyrir heimilislaust fólk í Reykjanesbæ á síðasta fundi ráðsins. Til fundarins voru einnig kölluð Margrét Lilja Margeirsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála, Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu og Bjarney Rós Guðmundsdóttir teymisstjóri ráðgjafa-og virkniteymis.

Einn liður í félagsþjónustu sveitarfélaga sem Alþingi hefur mælt fyrir um í lögum er að sveitarfélög skuli koma að húsnæðismálum íbúa þeirra við tilteknar aðstæður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í ályktun umboðsmanns Alþingis frá 2018, sem rituð var vegna húsnæðisvanda utangarðsfólks í Reykjavík, kemur skýrt fram að öll sveitarfélög þurfi að huga að úrræðum varðandi húsnæðisvanda íbúa sinna með geð- og fíknivanda eða annan fjölþættan vanda. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 14. gr. stjórnarskrárlaga nr. 97/1995, skal öllum sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Húsnæðisvandi er ekki tilgreindur í þessum lögum en skilja má að ef einstaklingur er í neyð vegna húsnæðisleysis þá ber sveitarfélagi að vinna úr þeim málum einstaklings hverju sinni.

Velferðarráði ber skylda til að tryggja framboð af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna.