Forstöðumaður Súlunnar tilkynntur á næstunni
Tólf einstaklingar sóttu um starf forstöðumanns Súlunnar í Reykjanesbæ en vænta má svara, um það hver hafi hlotið starfið, síðar í vikunni.
„Við höfum verið að taka viðtöl úr stórum hópi hæfra umsækjenda og höfum þrengt hópinn. Það má reikna með að niðurstaða liggi fyrir eftir næsta bæjarráðsfund síðar í vikunni,“ sagði Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi og oddviti Beinnar leiðar, í samtali við Víkurfréttir.
Forstöðumaður Súlunnar er nýtt starf hjá Reykjanesbæ en Súlan er ný skrifstofa þar sem ýmsir málaflokkar heyra undir, m.a. atvinnumál, menningarmál, markaðs- og kynningarmál, ferðamál, safnamál og verkefnastjórnun.
Hjá Súlunni starfa sérfræðingar viðkomandi málaflokka með það markmið að auka þjónustu og bæta lífskjör. Víkurfréttir greindu áður frá því hverjir sóttu um starfið en í því felst m.a. ábyrgð á innleiðingu verkefnastjórnunar sem stjórnunaraðferð í starfsemi Reykjanesbæjar, ábyrgð á innleiðingu og vinnu með stefnumótun Reykjanesbæjar á verkefnasviði Súlunnar, efling og samræming kynningar- og markaðsmála Reykjanesbæjar og ýmislegt fleira.