Forstjóri HS bjartsýnn um samkomulag
Fulltrúar Hitaveitu Suðurnesja funduðu fyrir helgi með fulltrúum hermálayfirvalda í Washington um samningamál vegna kaupa Varnarliðsins á heitu vatni fyrir varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli. Ljóst er að Hitaveitan verður fyrir talsverðum búsifjum verði ekki staðið við langtímasamning þann sem í gildi er á milli þessara aðila.
Júlíus Jónsson, forstjóri HS, sagði í samtali við fréttastofu Útvarps í gær að viðræður myndu halda áfram á næstu dögum. Kvaðst hann hafa trú á að samkomulag næðist um efndir samningsins.
Þá lauk einnig fyrir helgi tveggja daga fundi viðræðunefnda Íslands og Bandaríkjamanna um varnarmál og viðskilnað Bandaríkjamanna við brottför Varnarliðsins. Viðræðunum er ekki lokið og er ráðgert að halda þeim áfram síðar í þessum mánuði.