Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Forstjóri Gæslunnar sækir Varnarliðið heim
Föstudagur 18. febrúar 2005 kl. 15:54

Forstjóri Gæslunnar sækir Varnarliðið heim

Forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Georg Kr. Lárusson, fór í vikunni í sína fyrstu opinberu heimsókn til Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eftir að hann var skipaður í embættið. Í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að heimsóknin var í boði yfirmanns Varnarliðsins, Roberts M. McCormick ofursta, sem tók á móti forstjóranum og fylgdarliði hans ásamt sínum nánustu samstarfsmönnum.

Helstu samstarfsstofnanir Landhelgisgæslunnar innan varnarsvæðisins voru heimsóttar og fjallað um sameiginleg verkefni en varnarsvæðið í heild var einnig kynnt. Þrátt fyrir ýmsar breytingar á skipulagi Varnarliðsins verður það áfram mikilvægur öryggishlekkur í mörgum verkefnum sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á. Þau mál voru m.a. rædd á meðan á heimsókninni stóð.

Í tilkynningunni segir að Varnarliðið sé og hafi verið mikilvægur samstarfsaðili Landhelgisgæslunnar á sviði björgunar- og öryggismála um áratuga skeið og samskiptin mikil, náin og fagmannleg. Landhelgisgæslan er tengiliður Varnarliðsins gagnvart íslenskum aðilum á sviði leitar- og björgunarmála samkvæmt sérstökum samningi þar um.

Mynd: Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands ásamt Reobert McCormick yfirmanni Varnarliðsins í Keflavík.  Með þeim á myndinni eru Michael Kristensen tengiliður danska sjóhersins hjá Varnarliðinu, William Becker aðgerðarstjóri Varnarliðsins, Rik Combs næstráðandi yfirmaður Varnarliðsins, Ásgrímur L. Ásgrímsson deildarstjóri hjá Landhelgisgæslunni og Kristján Þ. Jónsson yfirmaður gæsluframkvæmda hjá Landhelgisgæslunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024