Forstjórastóll Leifsstöðvar ekki merktur Ómari
Hlutafélag var stofnað um rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli 30. ágúst s.l. Ríkissjóður er sem fyrr eini eigandi Flugstöðvarinnar. Fram til þessa hefur utanríkisráðuneytið haft yfirstjórn með rekstri Flugstöðvarinnar en stjórn hlutafélagsins tekur formlega við því hlutverki 1. október nk. Staða forstjóra Flugstöðvarinnar hefur verið auglýst, en umsóknarfrestur rennur út 15. september nk. Ómar Kristjánsson, núverandi forstjóri Flugstöðvarinnar, er meðal umsækjenda, en starfssamningur hans rennur út 1. október.Gísli Guðmundsson, forstjóri B&L, var kosinn formaður stjórnar hlutafélagsins. Varaformaður er Stefán Þórarinsson, forstjóri Nýsis, meðstjórnendur eru Skúli Þ. Skúlason, aðstoðarkaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Suðurnesja og Samkaupum, Sigurður Garðarsson, verkfræðingur og Haraldur Johannessen, hagfræðingur.Staða forstjóra flugstöðvarinnar var auglýst til umsóknar fyrir skömmu en umsóknarfrestur rennur út 15. september nk. Ómar Kristjánsson, settur forstjóri Flugstöðvarinnar, er einn umsækjenda, ásamt fjölda annarra. Í DV var því haldið fram að búið væri að ráða Ómar í stöðuna, en Gísli Guðmundsson dregur þær sögusagnir til baka og segir ekki vera útséð með það fyrr en umsóknarfrestur rennur út. „Stjórnin mun ráða í þessa stöðu þegar þar að kemur. Ég veit um ýmsa sem hafa hugsað sér að sækja um og við lokum engum dyrum fyrr en við vitum hverjir sækja um“, segir Gísli. Mun stjórnin beita sér fyrir breytingum á rekstri Flugstöðvarinnar?„Ég sé ekki fram á neinar breytingar á nánustu framtíð, því við eigum fullt í fangi með að sinna þeim verkefnum sem liggja fyrir, eins og stækkun Flugstöðvarinnar. Þeim framkvæmdum verður að vera lokið 1. mars, þegar við göngum inn í Schengen. Mér sýnist þetta standa tæpt, en framkvæmdum verður að ljúka á tilsettum tíma. Það sem við erum að fást við þessa dagana er undirbúningsvinna fyrir nýtt skipurit og mannaráðningar“, segir Gísli.