Forsetinn sendir kveðjur til Suðurnesjamanna
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir íbúum Suðurnesja hlýjar kveðjur í færslu á Facebook fyrr í dag. Forsetinn skrifar m.a. um jarðskjálftana á Reykjanesskaga en á Bessastöðum hefur forsetinn og hans fólk svo sannarlega fundið fyrir skjálftunum síðustu daga.
„Enn skelfur jörð á Reykjanesskaga. Héðan frá Bessastöðum sést Keilir vel og í nótt fundum við svo sannarlega fyrir enn einum skjálftanum sem átti upptök sín í grennd við það tignarlega fjall. Enn harðari hefur hann þó verið í Grindavík og annars staðar á Suðurnesjum. Ég sendi íbúum þar hlýjar kveðjur og áfram þurfum við að hafa varann á þótt þessi hrina sé vonandi í rénun,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og beinir lesendum á upplýsingasíður um varnir og viðbrögð við jarðskjálftum: https://www.almannavarnir.is/.../varnir-gegn-jardskjalfta/