Forsetinn og ráðherra í afmæli Keilis í dag kl. 15
Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs fagnar þriggja ára afmæli í dag, föstudag með afmælishátíð í kirkjunni að Ásbrú, þar sem Keilir var stofnaður og hefur verið með starfsemi og höfuðstöðvar frá fyrsta degi.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hafa boðað komu sína í afmælisfagnaðinn sem hefst kl. 15 (en ekki kl. 14 eins og áður hefur komið fram) og eru allir boðnir velkomnir þangað, að sögn Hjálmars Árnasonar framkvæmdastjóra Keilis.
Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, var stofnaður vorið 2007. Skólinn hefur aðsetur á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins í Reykjanesbæ – sem nú kallast Ásbrú – og starfar sem stendur í fjórum skólum. Hver þeirra hefur sínar áherslur í samræmi við markmið Keilis að byggja á mikilvægi alþjóðaflugvallar og umhverfisvænum auðlindum en jafnframt að nýta þá þekkingu sem er til staðar í nærumhverfinu.
Keilir er hlutafélag. Meðal eigenda eru Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, rannsóknarstofnanir, orku- og fjármálafyrirtæki, sveitarfélög, almenningssamtök, flugfélag og verkalýðsfélög.
Mynd: Frá stofnun Keilis vorið 2007. Mynd: Sjónvarp Víkurfrétta