Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forseti bæjarstjórnar sá ekki bæjarfulltrúa fyrir vindlareyk
Hjörtur Zakaríasson fráfarandi bæjarritari mætti með skemmtilega sögu af rúmlega 30 ára ferli í Keflavíkurbæ og Reykjanesbæ. Hér er hann með fundarhamarinn sem fór í sundur þegar Böðvar Jósson lamdi honum of harkalega í borðið á fundi á síðasta ári.
Föstudagur 10. apríl 2015 kl. 22:59

Forseti bæjarstjórnar sá ekki bæjarfulltrúa fyrir vindlareyk

„Ég get sagt ykkur margar sögur eftir að hafa starfað í bæjarstjórn og með bæjarfulltrúum á fjórða áratug. Ein sagan er staðreynd og er dæmi um breytta tíma,“ sagði Hjörtur Zakaríasson, fráfarandi bæjarritari á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í vikunni. Hann þakkaði hlý orð í sinn garð en bæði Anna Óla Ólafsdóttir forseti bæjarstjórnar og Böðvar Jónsson fráfarandi forseti fluttu ræðu honum til heiðurs og þökkuðu honum góð störf í þágu Keflavíkurbæjar og Reykjanesbæjar.

Eftir að hafa hlýtt á lof og góð orð í sinn garð mætti Hjörtur nokkuð meyr í ræðupúlt. Hann mætti með sögu eða frásögn frá löngum ferli: „Tómar heitinn Tómasson (mynd til hægri) var forseti bæjarstjórnar Keflavík í mörg ár og það situr ofarlega í huga mér þegar hann stjórnaði fundum í miklum reykjarmekki. Þá sátu margir bæjarfulltrúar á bæjarstjórnarfundi með stóra vindla og reyktu svo mikið að stundum sá maður ekki forsetann. Forsetinn sá ekki heldur bæjarfulltrúana fyrir vindlamengun. Ég veit ekki hvernig hann fór í gegnum þetta, þessi heiðursmaður, sem reykti ekki og smakkaði heldur ekki vín,“ sagði fráfarandi bæjarritari. Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar hlógu að sögunni sem þeim þótti góð og skýrt dæmi um breytta tíma en nokkuð er síðan reykingar voru leyfðar í sal bæjarstjórnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024