Forseti bæjarstjórnar á fleygiferð í vatnsrennibraut
Laufey Erlendsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garði, brunaði fyrst niður nýja vatnsrennibraut í Garði. Vatnsrennibrautin var formlega tekin í notkun við íþróttamiðstöðina í Garði nú áðan. Löng biðröð var í rennibrautina og börnin í Garði virðast skemmta sér konunglega í þessu nýjasta leiktæki í Garði.
Það voru þau Oddný Harðardóttir bæjarstjóri í Garði og Jón Hjálmarsson, forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar, sem klipptu á borða að hringstiga upp í rennibrautina. Þá kom það í hlut forseta bæjarstjórnar að renna sér fyrstu ferðina. Börnin fylgdust með af athygli þegar Laufey kom á fleygiferð niður brautina og lenti með miklum gusugangi og fór á bólakaf í laugina við enda vatnsrennibrautarinnar.
Slegið var upp grillveislu í sundlaugargarðinum í Garði við þetta tækifæri þar sem voru grillaðar pylsur.
Nú er unnið að því að setja upp gufubaðsklefa í sundlaugargarðinum. Garðurinn við laugina hefur verið stækkaður og umhverfi rennibrautarinnar klætt með mjúku undirlagi. Framkvæmdir við sundlaugargarðinn kosta á fjórða tug milljóna króna en vatnsrennibrautin ein og sér kostar 24 milljónir króna.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í sundlaugargarðinum nú áðan og eins og greina má á efstu myndinni er skelfingarsvipur á forseta bæjarstjórnar þegar hún kemur niður rennibrautina. Börnin í Garði voru ögn brattari en forsetinn og kunna vel að meta nýju rennibrautina við sundlaugina.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson