Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forsetakosningar: Færri kjósa utankjörfundar nú en fyrir 8 árum
Fimmtudagur 24. júní 2004 kl. 10:56

Forsetakosningar: Færri kjósa utankjörfundar nú en fyrir 8 árum

Alls hafa 439 manns kosið utankjörfundar í forsetakosningum sem verða haldnar næstkomandi laugardag. Mun færri hafa kosið utankjörfundar fyrir forsetakosningarnar í ár heldur en fyrir átta árum en þá kusu alls 1433 utankjörfundar á Suðurnesjum.
Að sögn Jóns Eysteinssonar sýslumanns í Keflavík var óvenjumikið kosið utankjörfundar síðustu tvo dagana fyrir forsetakosningarnar 1996, en Jón segir ljóst að þátttaka verði mun minni fyrir kosningarnar í ár en árið 1996. „Í lok miðvikudagsins fyrir kosningarnar 1996 voru 550 manns búnir að kjósa utankjörfundar, 200 fleiri en í ár,“ sagði Jón í samtali við Víkurfréttir.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Suðurnesjum fer fram hjá Sýslumannsembættinu í Keflavík og á lögreglustöðinni í Grindavík. Opið er hjá Sýslumanninum í Keflavík og á lögreglustöðinni í Grindavík til klukkan 18 í dag og á morgun. Á kjördag verður opið frá klukkan 9 til 12 í Grindavík og frá 9 til 13 hjá Sýslumanninum í Keflavík en þá geta aðeins þeir sem ekki hafa lögheimili á Suðurnesjum kosið á báðum stöðum. Þurfa þeir sjálfir að koma atkvæði sínu til viðkomandi kjördeildar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024