Forsætisráðherra á opnum fundi í Reykjanesbæ á laugardag
Jóhann Sigurðardóttir forsætisráðherra verður á fundi í Keflavík á morgun en þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Björgvin G. Sigurðsson, Oddný G. Harðardóttir og Róbert Marshall, hafa undanfarnar vikur verið á fundaferð um kjördæmið þar sem þau hlusta á viðhorf íbúa, ræða stöðuna í landsmálum og verkefnin framundan.
Sjávarútvegsmál, atvinnusköpun, skuldamál heimila og fyrirtækja, auðlindanýting, samningsmarkmiðin við ESB, og hvernig útrýma eigi fátækragildrum og efla menntun hafa m.a. verið til umræðu á fjölsóttum og fjörlegum fundum á Höfn, í Vik í Mýrdal, Grindavík, á Hellu, í Þorlákshöfn, Hveragerði, á Selfossi, í Vestmannaeyjum og Garði.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra slæst í hóp þingmannanna á tíunda og síðasta fundi þeirra í fundaferðinni á morgun laugardag 21. maí í Samfylkingarsalnum við Keflavíkurhöfn að Víkurbraut 13 og hefst fundurinn kl. 10.30.
Fundurinn er öllum opinn. Heitt á könnunni og allir velkomnir, segir í frétt frá Samfylkingunni.
VF-mynd: Jóhanna á spjalli við Árna Sigfússon, bæjarstjóra Reykjanesbæjar á fundi ríkistjórnarinnar í Víkingaheimum í nóvember sl.