Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Forréttindi og draumur hvers sjómanns
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 2. desember 2021 kl. 12:26

Forréttindi og draumur hvers sjómanns

Arnar Óskarsson, skipstjóri á Baldvini Njálssyni GK 400 
í skýjunum með nýja skipið sem stækkaði á teikniborðinu. 
Bygging frystitogarans tók aðeins fimmtán mánuði.

„Þetta eru mikil forréttindi og draumur hvers sjómanns og alls ekki allir sem fá að upplifa það að taka við nýju skipi. Þetta er mitt fyrsta skipti og ég er búinn að vera til sjós í rúm þrjátíu ár. Maður er stoltur að vera treyst fyrir þessu skipi,“ sagði Arnar Óskarsson, skipstjóri á Baldvini Njálssyni, í viðtali við Víkurfréttir við komuna til Keflavíkur á þriðjudag.

Arnar segir þetta vera mikið stökk, að fara af eldri togara með sama nafni og yfir á þennan. Þar hafði hann verið í sextán ár. „Það er bara ekki hægt að líkja þessum skipum saman. Þetta er eins og að fara af gömlum og litlum Fiat yfir á Audi lúxusrafmagnsbíl, þetta er bara ekki líkt,“ segir ánægður skipstjórinn. Arnar hefur verið síðustu mánuði á Spáni og fylgt skipinu eftir á lokametrunum hjá skipasmíðastöðinni. Hann hefur einnig tekið virkan þátt í hönnunarferlinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arnar segir að heimferðin hafi gengið vel. Áhöfnin hafi lent í skítaveðri um leið og lagt var úr höfn og siglt í stormi í tvo á hálfan sólarhring. „En við gátum siglt skipinu á ellefu til tólf mílum og það hreyfðist varla nokkuð úr stað hér um borð. Við fórum langt út í haf til að forðast illviðri sem var bæði í Norðursjó og vestan við Írland. Norður af Írlandi vorum við svo komnir í fínt veður og sluppum heim á fimm sólarhringum, um 1400 mílur.“

Arnar segir að það hafi verið ánægjulegt að vinna með Spánverjunum að smíði skipsins og þeir hafi borið mikla virðingu fyrir Íslendingunum og allt viljað fyrir þá gera.

Baldvin Njálsson GK byrjaði sem mun minna skip á teikniborðinu en fór svo stækkandi. Fyrst var byrjað með fjórtán metra breytt skip sem síðan fór í fimmtán metra breidd og endaði svo í sextán metrum. „Þetta endaði sem risaskip en eigendurnir vildu hafa mikla sjálfvirkni og vöruhótel um borð og geta landað á brettum. Þetta byrjaði öðruvísi en endaði sem hátækniskip,“ segir Arnar Óskarsson skipstjóri. Nánar verður rætt við hann og aðra úr áhöfn Baldvins Njálssonar GK í Víkurfréttum í næstu viku. Einnig má sjá innslag um komu skipsins í Suðurnesjamagasíni á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30.