Fornleifarannsóknir í Höfnum hefjast að nýju
Byggðasafn Reykjanesbæjar og Fornleifafræðistofan hafa hlotið veglega styrki sem gerir okkur kleift að hefja seinni áfanga fornleifarannsókarinnar í Höfnum sem Fornleifafræðistofan hefur annast í samstarfi við Reykjanesbæ.
Það er mikið gleðiefni enda kom það í ljós árið 2009 að um mjög áhugaverðar minjar er að ræða en minjarnar eru aldursgreindar til 8. - 9. aldar. Þegar hefur
einn þriðji hluti skálans verið grafinn, auk prufuhola á víð og dreif í næsta nágrenni hans. Reyndist hann afar vel varðveittur og gefur glögga mynd af húsakynnum þessa tíma. En margar spurningar vöknuðu einkum um hvers konar búseta hafi verið á þessum stað.
Dr. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrir rannsókninni hefur velt fyrir sér hvort hér sé um að ræða eins konar útstöð frá Evrópu sem reist var skömmu fyrir hið eiginlega landnám. Hlutverk útstöðvarinnar hefur þá verið að nýta allar þær auðlindir sem svæðið bauð upp á.
Eins og áður verða nokkrir háskólanemar með Bjarna í verklegri kennslu í fornleifafræði en afar mikil ánægja var með þetta verkefni síðast.
Öllum nemendum 5. bekkjar grunnskóla bæjarins hefur verið boðið að kynna sér rannsóknina og jafnframt að skoða þær minjar sem fundust árið 2009 og eru til sýnis í Víkingaheimum.
Ráðgert er að rannsókninr standi í fjórar vikur og geta áhugasamir fylgst með framvindu mála. Þetta er fyrsta fornleifarannsókn á bæjarrústum hér á Suðurnesjum en löngu er tímabært að okkar saga sé könnuð með þessum hætti. Þessi áhugaverða rannsókn hefur sannarlega komð Suðurnesjunum á kort fornleifafræðinga sem áhugavert landsvæði.
Mynd: Frá fornleifarannsókninni 2009.