Fornbílar munu ekki keyra niður Hafnargötuna

-Aukin krafa um öryggi á hátíðinni

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna Ljósanætur. Í henni kemur meðal annars fram að fornbílar munu ekki aka niður Hafnargötuna laugardaginn 2. september sem er aðaldagur Ljósanætur. Meðlimir í Bifhjólaklúbbnum Erni munu hinsvegar aka niður Hafnargötuna og munu fornbílarnir vera til sýnis á Keflavíkurtúni frá 12:30 á laugardeginum.

Ökumenn fornbíla geta lagt bílum sínum á Keflavíkurtúni á tímabilinu 10:00-12:30 og munu bílarnir vera þar til sýnis eftir hádegi. Ástæða þess að bílarnir fá ekki að keyra niður Hafnargötuna eins og áður er að Lögreglan hefur farið yfir öryggismál vegna Ljósanætur og er komin aukin krafa um öryggi á meðan á hátíðinni stendur.

Þetta kemur meðal annars fram í fréttatilkynningunni:

Ljósanótt í Reykjanesbæ verður haldin 31. ágúst til og með 3. september í ár. Lögreglan á Suðurnesjum og Öryggisnefnd Ljósanætur hafa haldið fundi um öryggismál vegna hátíðarinnar.
Lögregla hefur farið yfir öryggismál vegna Ljósanætur.
Það er mat lögreglustjóra að allur akstur bifreiða innan um stóran hóp fótgangandi vegfarenda sé mjög varhugaverður og kunni að stofna gangandi fólki í umtalsverða hættu. Því er akstur bifreiða stórra sem smárra um Hafnargötu í Reykjanesbæ alfarið bannaður meðan á hátíðinni stendur. Ítrekað er að leyfislaust flug dróna á og yfir hátíðarsvæðinu er algerlega bannað.
Það hjálpar mikið þegar börn verða viðskila við foreldra eða aðra forsvarsmenn á hátíðinni að þau hafi símanúmer foreldra tiltæk.
Vonast er til að hátíðin fari vel fram eins og fyrri hátíðir.
Reykjanesbæ, 16. ágúst 2017.
Ólafur Helgi Kjartansson lögregustjóri á Suðurnesjum

Tilkynningin birtist á heimasíðu Reykjanæsbæjar.