Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fornbílaklúbburinn hvetur félagsmenn til að sniðganga Ljósanótt
Mánudagur 21. ágúst 2017 kl. 13:17

Fornbílaklúbburinn hvetur félagsmenn til að sniðganga Ljósanótt

Eins og fram hefur komið hefur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekið þá ákvörðun um að banna hátíðarakstur bíla um Hafnargötuna, en þó heimilað akstur mótorhjóla um götuna. Stjórn Fornbílaklúbbs Íslands er ósátt við þessa ákvörðun, enda ekki á neinn hátt tekin í samráði við klúbbinn. Ef þessi ákvörðun verður ekki endurskoðuð þá hvetur Fornbílaklúbbur Íslands félagsmenn sína til að sniðganga Ljósanótt.

Stjórn Fornbílaklúbbs Íslands sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum
og fjölmiðlar


Varðandi þá ákvörðun Lögreglustjórans á Suðurnesjum að loka Hafnargötu fyrir hátíðarakstri fornbíla á Ljósanæturhátíðinni í Reykjanesbæ 2. september nk.

Undanfarin ár hafa félagar í Fornbílaklúbbi Íslands, ásamt félögum í öðrum bílaklúbbum, tekið þátt í hátíðarakstri á Ljósanótt. Aksturssýning sem hefur vakið mikla athygli gesta á hátíðinni, enda mikill fjöldi glæsilegra bíla sem tekið hafa þátt í þessum akstri og sýningin fyrir vikið verið mjög vegleg.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og einnig á heimasíðu Reykjanesbæjar hefur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Ólafur Helgi Kjartansson, tekið þá ákvörðun um að banna hátíðarakstur bíla um Hafnargötuna, en þó heimilað akstur mótorhjóla um götuna. Stjórn Fornbílaklúbbs Íslands lýsir því hér með yfir að sú ákvörðun sé mjög óskiljanleg, enda ekki á neinn hátt tekin í samráði við klúbbinn, stjórn hans eða aðra klúbba, en þessa ákvörðun mátti fyrst sjá í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Jafnframt þessu finnst okkur sú ákvörðun um að heimila hátíðarakstur mótorhjóla í hundraðavís eftir götunni, en ekki fornbílum, í hæsta máta einstaklega furðuleg ákvörðun. Stjórn klúbbsins finnst ákvörðunin illa rökstudd og félaginu hafa ekki verið sendar neinar skýringar hvers vegna ákvörðun þessi er tekin.

Stjórn Fornbílaklúbbsins hefur af þessum sökum tekið þá ákvörðun að aflýsa áður ráðgerðum akstri og sýningu fornbíla á Ljósanæturhátíðinni á vegum félagsins og opinberlega hvetur eigendur allra slíkra ökutækja til að sniðganga hátíðina. Af þessum sökum mun því að óbreyttu engin sýning fornbíla fara fram í Reykjanesbæ 2. september 2017 á vegum Fornbílaklúbbs Íslands.

Endurskoði Lögreglustjórinn á Suðurnesjum í samráði við Bæjarstjórn Reykjanesbæjar, Fornbílaklúbbs Íslands (og annarra bílaklúbba sem hafa tekið þátt), ákvörðun þessa má gera ráð fyrir að félagar úr klúbbnum fjölmenni á hátíðina eins og undanfarin ár, en verði hún látin standa verður engin sýning í ár og þátttöku Fornbílaklúbbs Íslands í þessari bæjarhátíð þar með endanlega lokið um nána framtíð.

Fyrir hönd stjórnar Fornbílaklúbbs Íslands,
Þorgeir Kjartansson, formaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024