Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Formleg kvörtun til Mannvirkjastofnunar vegna ítrekaðra brota Reykjanesbæjar
Arnar afhenti kvörtunina til fulltrúa Mannvirkjastofnunar.
Föstudagur 17. október 2014 kl. 12:28

Formleg kvörtun til Mannvirkjastofnunar vegna ítrekaðra brota Reykjanesbæjar

Arnar Helgi Lárusson formaður Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra (SEM) skilaði þremur formlegum kvörtunum inn til Mannvirkjastofnunar í gærmorgun vegna slakra vinnubragða byggingafulltrúa og stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Þetta er ekki fyrsta skiptið sem Arnar skilar inn kvörtun til þeirra en þó fyrsta formlega kvörtunin þar sem það getur reynst þrautinni þyngra að koma kvörtun áleiðis í gegnum kerfið.

Þetta kemur fram á heimasíðu SEM en til þess að kvartanir uppfylli skilyrði Mannvirkjastofnunar þurfa að fylgja teikningar af viðkomandi húsi og ýmis fylgigögn. Það getur verið flókið og erfitt að fá þau gögn sem þarf fá bæjarfélögum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arnar óskar eftir því í kvörtuninni að þessir staðir missi starfsleyfi og að byggingarfulltrúinn á svæðinu verði gerður ábyrgur fyrir þessum slóðaskap en einnig virðist það vera landlægt hjá Reykjanesbæ að leyfa lista- og skemmtiviðburði í húsum bæjarins sem hafa ekki starfsleyfi og eru hreinar slysa- og brunagildrur og enginn segir neitt.

Arnar hefur í gegnum árin reynt að vinna með stjórnsýslunni en ekki haft erindi sem erfiði þar sem starfsmenn bæjarins segjast vera beittir þrýstingi um að fara ekki eftir lögum og reglum og bæði fráfarandi og núverandi bæjarstjórnir hafi engan skilning á málunum.

Það er gerð krafa frá Reykjanesbæ að fatlaðir einstaklingar í hjólastól eigi að geta lifað sem sjálfstæðustu lífi í sínu nær umhverfi og ekki sé nein ástæða til þess að aðstoða þá að neinu leiti, en samt er bara brot af þjónustunni í Reykjanesbæ aðgengileg fólki í hjólastólum.

Arnar er þriggja barna faðir og segir það að geta ekki fylgt börnum sínum á æfingar sökum aðgengisleysis vera mjög dapurt. Árið 2006 var unnin skýrsla um aðgengi að verslunar- og á helstu þjónustustöðum bæjarins, þá var aðeins 11-14% þeirra aðgengilegt fyrir fólk í hjólastólum. Á þeim tíma náðu fyrirtæki við Hafnargötuna ekki 100 talsins en eru nú samkvæmt nýjustu tölum 120 talsins. Ekkert af þeim fyrirtækjum sem hafa bæst við eru í aðgengilegu húsnæði þannig að að hlutfall aðgengilegrar þjónustu fyrir fólk í hjólastólum er líklega komið niður fyrir 10%. Þetta er til háborinnar skammar fyrir jafnstórt bæjarfélag og Reykjanesbæ, segir í frétt á heimasíðu Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra.

Arnar er duglegur keppnismaður í íþróttum.