Formaður bæjarráðs Grindavíkur ber sveitungum sínum kraft í brjóst
„Í bæjarstjórn Grindavíkur er enginn meiri- eða minnihluti, það er einungis sjö manna samstíga minnihlutastjórn gagnvart þeim náttúruöflum sem hafa tekið öll völd,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur í áramótapistli sínum á Facebook.
Hjalli sem var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum og lék bæði með knattspyrnu- og körfuboltaliði Grindavíkur, var alltaf þekktur fyrir sína gallhörðu baráttu og orðið fyrirliði var nánast skrifað á ennið á honum. Hann sýnir þessa eiginleika sína í þessum pistli, þar sem hann reynir að berja Grindvíkingum eldmót í brjóst.
Kæru Grindvíkingar, vinir og vandamenn
Ég get ekki sagt að ég muni sakna þess árs sem er að líða eða sérstaklega ekki frá og með 10. nóvember síðastliðnum. Þetta eru búnir að vera einhverjir þeir erfiðustu tímar sem ég hef upplifað. En hvað um það, ég er bjartsýnn fyrir næsta ár sem getur ekki orðið annað en betra en þetta sem nú er að líða. Við þurfum alltaf að halda áfram og hugsa um allar yndislegu stundirnar sem við höfum átt og eigum eftir að upplifa. Við munum upplifa Grindavík eins og hún var með sína 3800 íbúa og þegar allt lék í lyndi. Öflugt atvinnulíf, frábær íþróttaðstaða, öflugt mannlíf og frábær náttúra sem er að stríða okkur svolítið núna. En munum það að við þurfum að lifa með þessari náttúru sem hefur þó verið okkur svo gjöful.
Hér hef ég átt heima frá árinu 1979, er búinn að hristast af og til þó svo að eldgos hafi ekki komið upp í huga mér á þessum árum. Það óttast ég ekki vitandi að ekkert eldgos á Reykjanesskaga hafi verið nálægt strönd utan Reykjaness sem er í beinni línu af Eldvörpum. Það styrkir mig í þeirri trú að það mun ekki gjósa í Grindavík sjálfri en það getur gosið í Svartsengi, Hagafelli, Sundhnúksgígum o.s.frv. Þá þurfum við að verjast hraunflæði ef gosið kemur upp sunnan vatnaskila eða að hraun eigi möguleika að renna til suðurs. Þá er gott að hafa leiðigarða sem beina flæðinu frá Grindavík bæði til austur og vestur. Þetta er þegar komið á teikniborðið og miðað við fréttir þá hefst sú vinna 2. janúar.
Mín skoðun er sú að aldrei hafi verið kvikugangur undir Grindavík (eða bænum), enda greinir fræðimönnum á um það en ég tel þann hluta bæjarins sem seig niður vera flekaárekstra og þar af leiðandi er mikil spenna í landgrunninum búin. Reykjanesið er allt í sprungum sem liggja norðaustur en suðurlandið er með sprungur sem liggja frá suðri til norðurs. Þarna eru mikil náttúruöfl að takast á og við erum að upplifa eitthvað sem gerðist síðast fyrir 2000 árum eða í gosum fyrir 800 árum. Þetta er mín skoðun en ég er ekki jarðfræðingur eða jarðeðlisfræðingur.
Kæru Grindvíkingar, sýnum nú samstöðu sem aldrei fyrr og reisum bæinn okkar upp að nýju. Það eiga allir erfitt á þessari stundu, félagslega, andlega og fjárhagslega. Þeir sem standa betur að vígi en aðrir eiga að standa með bræðrum sínum og systrum í Grindavík og hjálpa þeim sem eiga um sárast að binda. Það er okkar samfélagslega skylda. Einhverjir hafa misst húsin sín í altjóni, þá þarf að hjálpa þeim og að þeir fái réttláta meðferð til bóta. Einhverjir hafa misst vinnuna og þá þurfum við að hjálpa þeim. Einhverjir sitja uppi með skemmd hús en þau er hægt að laga og við þurfum að hjálpa þeim. Einhverjir eru í þeirri stöðu að vera með heilar fasteignir en geta ekki hugsað sér að flytja aftur heim, við verðum að hjálpa þeim. Við erum með fólk sem er ekki komið í nógu gott húsnæði miðað við aðstæður og við verðum að hjálpa þeim.
Í þessum aðstæðum erum við öll að tapa einhverju en munið að við erum í aðstæðum sem við völdum okkur ekki sjálf. Áskorunin okkar kæru bæjarbúar er sú að spyrja, hvað getum við gert fyrir Grindavík en ekki hvað getur Grindavík gert fyrir okkur.
Sem formaður bæjarráðs vil ég koma þeim skilaboðum til Grindvíkinga að bæjarstjórn er einhuga um að koma til móts við alla í Grindavík eins og unnt er. Í bæjarstjórn Grindavíkur er enginn meiri- eða minnihluti. Það er einungis sjö manna samstíga minnihlutastjórn gagnvart þeim náttúruöflum sem hafa tekið öll völd.
Bæjarstjórn Grindavíkur stóð frammi fyrir stórri ákvörðun um hvort ætti að viðhalda samningum við þá verktaka sem Grindavíkurbær hefur samið við um þjónustu í bænum. Ákvörðunin var tekin um að segja upp öllum þjónustusamningum sem Grindavíkurbær hefur gert vegna þess og við getum ekki borgað fyrir þjónustu sem við getum ekki nýtt og þjónustuveitendur geta ekki veitt. Meðal þess er samningur við Skóla ehf. Ekki náðist að semja við Skóla ehf. miðað við þá nýju stöðu sem við okkur blasir. Okkar vilji er að enginn missi vinnu sína og að öll börn úr Grindavík fái leikskólapláss. Því hefur Grindavíkurbær auglýst eftir starfsfólki í leikskóla svo hægt sé mæta báðum þessum hópum.
Að lokum vil ég þakka öllu því fólki sem hefur hjálpað okkur á þessum erfiðu tímum. Ég þakka öllum þeim fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum sem hafa aðstoðað okkur til þessa.
Ég óska ykkur og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs komandi árs.