Forgangsmál að koma hita og rafmagni á Grindavík
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, skoðaði aðstæður í Grindavík í morgun. Hann segir forgangsverkefni að koma rafmagni og heitu vatni aftur á Grindavík.
Vatn, bæði heitt og kalt, ásamt rafmagni var tekið af Grindavík í gær. Þá rann hraun yfir heitavatnslögnina til Grindavíkur í gær og ekki er vitað um ástandið á lögninni, annað en að einangrunarkápa brann af henni í hamförunum.
Lögreglustjóri sagði í aukafréttatíma á RÚV í hádeginu að flokkur manna verði sendur inn í Grindavík í dag til að skoða bæði vatn og rafmagn.
Aðspurður um ástandið á bænum, sagði Úlfar að hann líti ágætlega út. Víða séu þó misfellur í götum og nýjar sprungumyndanir. Meðal annars séu nýjar sprungur í iðnaðarhverfinu og það líti ekki vel út.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, sagði á RÚV í hádeginu að tryggja þurfi líf og limi. Það verði að vera öruggt að fara um Grindavík áður en farið sé í verðmætabjörgun og fólki hleypt inn.