Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Foreldrum Ásu afhentur 1,1 milljónar kr. styrkur úr söfnun
Miðvikudagur 16. júní 2010 kl. 12:39

Foreldrum Ásu afhentur 1,1 milljónar kr. styrkur úr söfnun

Nýverið var stofnaður söfnunarreikningur í SpKef sparisjóði til styrktar fjölskyldu Ásu Þorsteinsdóttir, sem lenti í hörmulegu bílslysi þann 24. apríl sl. Hún liggur mikið slösuð á sjúkrahúsi en er á batavegi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið söfnunarinnar er að styrkja fjölskylduna vegna tekjutaps sem hún hefur og munu verða fyrir. Mjög erfiðir tímar eru hjá þessari sex manna fjölskyldu og ferðirnar margar á milli Garðs og Reykjavíkur. Þá hefur fjölskyldan verið bíllaus frá því hið hörmulega umferðarslys átti sér stað.

Stuðningshópur að baki söfnuninni á sér greinilega marga liðsmenn, því í gær höfðu safnast rúmlega 1,1 milljón króna sem fulltrúar stuðningshópsins, þær Elísabet Ólöf Sigurðardóttir og Sigríður Andradóttir, afhentu Sigríði Þ. Þorleifsdóttur, móður Ásu. Sigríður var að vonum þakklát fyrir stuðninginn sem samkvæmt aðstandendum söfnunarinnar er að koma víða að.

Söfnunarreikningurinn við SpKef sparisjóð verður opinn í nokkrar vikur til viðbótar. Eru allir hvattir til þess að leggja sitt af mörkum til að auðvelda fjölskyldunni úr Garði lífið á erfiðum tímum. Númer reikningsins er: 1192-05-410100 kt. 130264-2989.

Myndin að ofan: Elísabet Ólöf Sigurðardóttir, Sigríður Þ. Þorleifsdóttir og Sigríður Andradóttir við afhendinguna á Garðskaga í gærkvöldi. VF-mynd: Hilmar Bragi