Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Foreldrar verða að horfast í augu við þann möguleika að barnið þeirra sé byrjað að neyta fíkniefna“
Föstudagur 1. nóvember 2002 kl. 15:48

„Foreldrar verða að horfast í augu við þann möguleika að barnið þeirra sé byrjað að neyta fíkniefna“

Víkurfréttir hittu á dögunum ungan mann sem verið hefur fíkniefnaneytandi í Reykjanesbæ síðustu ár. Ungi maðurinn er á þrítugsaldri og vill ekki láta nafns síns getið. Við köllum hann Braga í þessu viðtali.
Saga Braga er áþekk öðrum sem leiðst hafa út á brautir fíkniefnaneyslu. Hann varð fyrir miklu einelti í 8. bekk og átti mjög fáa vini. Bragi segir að með vinahópnum hafi hann fyrst prófað að reykja hass: „Ég fékk mér fyrst í „skalla” þegar ég var í 8. bekk. Maður lét plata sig út í allan fjandann því maður átti svo fáa vini og maður vildi sýnast töff með því að fá sér að reykja,“ segir Bragi og uppfrá þessu fékk hann sér reglulega að reykja hass.
Bragi hóf nám í 9. bekk en var fljótlega rekinn úr skóla: „Þegar ég var rekinn fór ég í 10. bekk í skóla í bænum og þar kynntist ég fyrst alvöru neyslu. Maður fór út í frímínútum og fékk sér í haus með hinum krökkunum. Síðan fór maður í tíma og hlustaði á kennarann alveg gjörsamlega freðinn. Maður lærði náttúrulega ekki neitt og ég kynntist mikið af krökkum þarna sem voru í harðri neyslu.“
Eftir að hafa „stundað“ nám í þessum skóla kynntist Bragi stúlku sem drakk ekki og var fyrirmyndarnemandi í sínum skóla: „Ég hélt mig frá öllu rugli í rúmt ár þegar ég var með þessari stelpu. En eftir árið fór ég að gera fáránlega hluti. Ég fór að reykja hass aftur án þess að hún vissi. Ég var með þessari stelpu í fjögur ár og allan þennan tíma gat ég falið neysluna fyrir henni. Ég var að brjótast inn, haldandi framhjá, takandi „spítt“ í nefið og var bara í þvílíku rugli,“ segir Bragi og það tekur mikið á hann að tala um þessa hluti.

12 volta borvél
Eins og komið hefur fram í umfjöllun Víkurfrétta um fíkniefnamál hefur ofbeldi í fíkniefnaheiminum harðnað síðustu árin. Í fjölmiðlum hefur mátt lesa ýmsar hrikalegar sögur um ofbeldi sem beitt er við innheimtu fíkniefnaskulda. Bragi segist einu sinni hafa orðið vitni að innheimtuaðferðum sem honum blöskraði yfir: „Ég var einu sinni staddur í bíl með tveimur félögum mínum. Við fórum saman og náðum í strák sem skuldaði öðrum þeirra töluverða upphæð vegna fíkniefna. Við biðum heillengi eftir tækifæri til að ná stráknum í bílinn og þegar hann var kominn inn keyrðum við á afskekktan stað. Þegar við vorum búnir að leggja tók félagi minn um 12 volta rafmagnsborvél og byrjaði að bora létt í hnéð á stráknum sem skuldaði. Hann boraði bara rétt í skinnið, en ég fór út úr bílnum þegar ég sá smá hvítt koma upp úr hnénu á stráknum. Mér blöskraði að sjá þetta og vildi ekki taka þátt í þessu. En það var borað í hnéð á honum, en hann fékk ekkert svöðusár við þetta. Og þessi strákur hefði aldrei farið upp á sjúkrahús til að láta athuga þetta,“ segir Bragi og það er greinilegt að honum blöskrar þessi atburður. Þegar blaðamaður gengur á hann og spyr hann nánar út í þennan atburð segir hann að ekkert sé verið að ýkja: „Ég meina, til hvers ætti ég að vera að ljúga þessu að þér. Þetta gerðist og þó þetta gerist ekki oft þá er þetta staðreynd í þessum heimi, því þegar skuldirnar eru orðnar háar þá er erfitt fyrir viðkomandi að greiða og þá er gripið til þessara ráða. Og þegar menn eru með „kólafjall“ (kókaín) í nefinu þá er þeim alveg sama hvað þeir eru að gera.“

Skuldin hækkaði um 80 þúsund krónur
Bragi segir að það sé töluvert algengt að handrukkarar úr Reykjavík komi á Suðurnesin til að innheimta skuldir. Bragi nefnir dæmi um það hvernig þessi rukkunarmál ganga fyrir sig: „Ef einhver skuldaði mér 50 þúsund kall og ég myndi selja þér skuldina þá myndi hún hækka strax upp í 100 þúsund. Þú ferð síðan að rukka og með einu símtali hækkar skuldin um 20 þúsund. Og ef þú þarft að fara á staðinn til að taka í náungann þá hækkar skuldin enn meira. Ég veit um dæmi þar sem skuld hefur hækkað úr 30 þúsund krónum og upp í 600 þúsund,“ segir Bragi en hann stóð nálægt handrukkunarmáli á Suðurnesjum fyrir stuttu: „Ég var hjá vini mínum og skaust út í 5 mínútur. Þegar ég kom til baka sagði vinur minn, sem skuldaði náungum í bænum 100 þúsund að tveir gaurar hefðu komið inn til sín þegar ég fór út. Vinur minn átti flotta Playstation tölvu og gott videó og þessir náungar tóku þessa hluti og hækkuðu skuldina um 80 þúsund krónur. Svona vinna þessi náungar.“

3-4 fíkniefnabæli
Bragi þekki fíkniefnaheiminn á Suðurnesjum vel og hann segir að það sé ótrúlega mikið af fíkniefnum í bænum, miklu meira en fólk geri sér grein fyrir: „Það er ótrúlegt hvað það er mikið af dópi í bænum, hassi, spítti (Amfetamíni) og ellum (E-pillum). Á skemmtistöðunum um helgar er fólk að bryðja ellur og nota spítt. Krakkar í 9. og 10. bekk eru farin að reykja hass og ég veit um nokkra stráka sem eru 16 ára sem eru farnir að selja dóp,“ segir Bragi og lýsir því yfir að honum finnist ótrúlegt hvað lögreglan er að ná litlu magni af dópi af götunni: „Löggann er öðru hverju að ná einhverjum sendlum með nokkur grömm á sér. Málið er bara að það er ótrúlega mikið af efnum í umferð og sérstaklega hassi. Ég veit um 3-4 hús hérna í bænum sem eru fíkniefnabæli og þar er allt morandi í dópi.“

Feluleikur í fjögur ár
Eins og áður segir náði Bragi að fela fíkniefnaneyslu sína fyrir kærustunni í fjögur ár: „Ég náði að fela þetta fyrir henni og fjölskyldu minni. Það er ótrúlegt hvað maður kemst langt í þessu án þess að nokkurn gruni. Mamma er tiltölulega nýbúin að komast að þessu, en þá sagði ég henni frá minni neyslu,“ segir Bragi og hann lýsir yfir áhyggjum af ungu fólki sem kannski er í 10. bekk sem er að reykja hass: „Þessir krakkar fara út á kvöldin um áttaleytið, fá sér í haus og eru á rúntinum fram yfir miðnætti. Þegar krakkarnir koma heim ná þau að fela ástand sitt og foreldrarnir eru annaðhvort farnir að sofa eða vilja ekki trúa því að barnið þeirra sé í dópi. Ég á ættingja sem er í 10. bekk í grunnskóla á Suðurnesjum og þessi ættingi hefur verið að segja mér að það sé ótrúlegt hvað margir í hennar árgangi séu að fikta við það að reykja hass um helgar. Sumir munu örugglega ekki trúa þessu, en þetta er að gerast og það eru foreldrarnir sem geta eitthvað gert í þessu,“ segir Bragi og hann er með skilaboð til foreldra: „Talið við barnið ykkar þegar það kemur heim. Athugið hvort pípa, gosflaska, pringles staukur eða eitthvað sé falið í herberginu og skoðið þið augun á barninu ykkar. Foreldrar verða að horfast í augu við þann möguleika að barnið þeirra sé byrjað að neyta fíkniefna,“ segir Bragi að lokum.

Ath: Ljósmyndin er sviðsett og af einstaklingi sem tengist á engan hátt málinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024