Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 16. desember 2005 kl. 15:31

Foreldrar! Sofnum ekki á verðinum

Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Gersema þarf að gæta og á það einnig við um lifandi gersemar. Áróðurinn um útivistartímann á erindi til okkar nú sem aldrei fyrr. Veruleikinn sem börnin okkar búa við er ekki bara góður, því miður eru margar dökkar hliðar á honum líka. Mesta hættan sem að börnum okkar stafar eru vímuefni af öllum gerðum sem fljóta um allt, ekki bara í Reykjanesbæ, heldur allstaðar. Óprútnir sölumenn „dauðans” leynast víða, þeir eru þar sem unga fólkið heldur sig og þá sérstaklega seint á kvöldin. Ungt efnilegt fólk sem á alla framtíðina fyrir sér fellur í hendur þessa sölumanna, það afvegaleiðist og á kannski ekki svo bjarta framtíð á eftir. Afleiðingar fíkniefnaneyslu geta verið skelfilegar, þeim fylgir oft mikil sjálfseyðingarhvöt og ofbeldi. Ljótustu ofbeldisverk eru oftast framin undir áhrifum fíkniefna og það er ekki bara fullorðið fólk sem fremur slíkt ofbeldi, það er líka unga fólkið okkar sem hefur afvegaleiðst.
Foreldrar í Reykjanesbæ, ég vil hvetja okkur öll til að sofna ekki á verðinum. Við verðum að vera í góðum tengslum við börnin okkar, vita hverjir eru vinir þeirra og umfram allt ekki veita þeim frelsi sem þau ráða ekki við. Frjáls útivist unglinga er þeim oft um megn og það er í skjóli nætur sem myrkraverkin eru oftast framin. Verndum gersemarnar okkar með ást, umhyggju og öruggum agaramma.

Útivistarreglurnar:

1. september til 1. maí
12 ára börn og yngri mega vera úti til kl. 20
13 - 16 ára börn mega vera úti til kl. 22

1. maí til 1. september
12 ára börn og yngri mega vera úti til kl. 22
13 - 16 ára börn mega vera úti til kl. 24

Hjördís Árnadóttir
foreldri og félagsmálastjóri í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024