Foreldrar í Reykjanesbæ ánægðastir með leikskólastarfið
Reykjanesbær skipar sér í efsta sætið þegar kemur að ánægju foreldra með leikskólann sinn. Þetta kemur fram í könnun Skólapúlsins sem framkvæmd var á vormánuðum og greint er frá á vef Reykjanesbæjar. Niðurstöðurnar staðfesta að það er verið að vinna mjög gott og metnaðarfullt starf í leikskólum bæjarins.
Í könnun Skólapúlsins var hugur foreldra til ýmissa þátta í leikskólastarfinu kannaður. Þegar spurt var um hvort foreldrar væru ánægðir með leikskólann sögðust 92,5 prósent foreldra leikskólabarna í Reykjanesbæ vera ánægðir með leikskólann sinn. Hlutfallið á landsvísu er 83,1 prósent. Alls sautján sveitarfélög tóku þátt í könnuninni.
Að sögn Ingibjargar Bryndísar Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa Reykjanesbæjar eru stjórnendur og kennarar þakklátir þessu trausti og þeim velvilja sem fram kemur í könnuninni.
Kannanir sem þessar hafa verið framkvæmdar á fjögurra ára fresti og eru liður í innra mati leikskólastarfsins. Hvernig má auka gæði þess og að stuðla að umbótum og framþróun? Foreldrakönnun Skólapúlsins fer fram í mörgum leikskólum landsins. Leikskólar og sveitarfélög sem taka þátt geta borið niðurstöður sínar saman við aðra leikskóla á landsvísu. Þannig má skoða styrkleika skólastarfsins og sóknarfæri.
Foreldrar geta nálgast samantekt úr könnun á heimasíðum leikskólanna.