Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Foreldrar hlupu í skarðið
Þriðjudagur 1. nóvember 2005 kl. 17:05

Foreldrar hlupu í skarðið

Mörg ný andlit mátti sjá í kennslustofum Heiðarskóla í Reykjanesbæ í morgun þegar foreldrar tóku að sér kennslu í öllum bekkjum í fjarveru kennara. Starfsfólk skólans sneri aftur úr náms- og kynningarferð til Minneapolis í morgun og höfðu þau samið við Foreldrafélag skólans um að foreldrar tækju að sér að sjá um fyrstu tvær kennslustundirnar.

Foreldrar sem Víkurfréttir náði tali af voru afar ánægð með að fá að koma að starfinu á þennan hátt og sögðu börnin hafa hegðað sér mjög vel. Í kaffisamsæti sem starfsfólk hélt foreldrum áður en þeir síðarnefndu héldu heim eða til vinnu, þakkaði Gunnar Jónsson, skólastjóri, fyrir hjálpina og lýsti yfir ánægju sinni með hvernig til hafði tekist.

Börnunum fannst tilbreytingin líka skemmtileg og sögðust meira en tilbúin til að hleypa foreldrunum inn í bekkina með þessum hætti í framtíðinni.

VF-Myndir/Þorgils Jónsson: Meðal afleysingarkennara í dag voru þeir Kjartan Már Kjartansson og Árni Sigfússon.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024