Foreldrar barna í Reykjanesbæ taka virkan þátt í námi barna sinna
Foreldrar barna í grunnskólum Reykjanesbæjar eru í hópi þeirra foreldra sem taka hvað virkastan þátt í námi barna sinna, samkvæmt foreldrakönnun Skólapúlsins frá árinu 2013.
Fram kemur að í Reykjanesbæ eru duglegustu foreldrar á landinu við að aðstoða börn sín við heimanám, en um þriðjungur foreldra ver að meðaltali að minnsta kosti 30 mínútum daglega í að aðstoða barn sitt við heimanám. Til samanburðar, er hlutfall þeirra foreldra sem verja svo miklum tíma í að aðstoða börn sín við heimanám aðeins um 15% á landsvísu.
Foreldrar barna í Reykjanesbæ eru almennt ánægðir með hversu mikið heimanám sé lagt fyrir af skólunum og hafa mikla trúa á eigin færni þegar kemur að því að hjálpa börnum sínum við námið. Loks sýna niðurstöður foreldrakönnunar Skólapúlsins 2013 að nemendur í Reykjanesbæ eru meðal duglegustu á landinu að leita eftir þátttöku foreldra sinna í náminu. Að sögn Gylfa Jóns Gylfasonar fræðslustjóra er afar ánægjulegt að sjá hversu vel samstarf heimilis og skóla er að ganga í bænum.