Foreldrafélag skorar á Grindavíkurbæ að veita ókeypis námsgögn
Foreldrafélag Grunnskóla Grindavíkur hefur skorað á bæjarstjórn Grindavíkur að kosta námsgögn allra nemenda við skólann frá og með næsta skólaári. Ályktun foreldrafélagsins, þess efnis, var lögð fram á fundi bæjarráðs Grindavíkur síðasta þriðjudag og var í framhaldinu vísað til fjárhagsáætlunarvinnu.
Í ályktun foreldrafélagsins er vísað til laga um grunnskóla þar sem segir að kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu og að óheimilt sé að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu.