Fordæmisgefandi og ógnar sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga um ókomna tíð
„Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hvetur sveitarfélög landsins og Samband íslenskra sveitarfélaga til að veita umsögn og taka afstöðu til frumvarps til laga um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi til lagningar Suðurnesjalínu 2 í lofti í sveitarfélaginu. Með frumvarpi þessu er gengið gegn grundvallaratriði stjórnskipunar um að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum. Verði þetta frumvarp að lögum mun það verða fordæmisgefandi og ógna sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga um ókomna tíð. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga skorar á önnur sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga að standa vörð um lögvarið skipulagsvald sveitarfélaga.“ Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga frá 2. mars síðastliðnum.
„Það skal skýrt tekið fram að Sveitarfélagið Vogar er ekki andvígt lagningu Suðurnesjalínu 2 og telur mikilvægt að auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Sveitarfélagið Vogar leggur áherslu á það sé að fara eftir þeirri umgjörð sem valkostagreiningin bauð upp á og vill að línan verði lögð í jörðu,“ segir jafnframt í bókuninni.
Bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga og umsögn um frumvarpið er eftirfarandi:
Frumvarp þetta var til umfjöllunar á 151. löggjafarþingi, 353. mál. Sveitarfélagið Vogar skilaði inn umsögn um frumvarpið, sem samþykkt var á 327. fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga, þ. 17.3.2021. Með umsögn þessari ítrekar bæjarráð Sveitarfélagsins Voga fyrri umsögn sína um málið, sem var svohljóðandi:
„Það er mat Sveitarfélagsins Voga að með frumvarpinu vegi flutningsmenn þess að þeirri vald- og ábyrgðarskiptingu sem gildir á milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að skipulagsmálum. Ekki með nokkrum rökum getur Sveitarfélagið Vogar samþykkt að víkja frá þeirri megin skiptingu á ábyrgð skipulagsmála sem fram kemur í skipulagslögum 123/2010. Í greinargerð með frumvarpi til skipulagslaga sem lagt var fram á 138. löggjafarþingi kemur skýrt fram í rökstuðningi með hvaða hætti skipting valdssviðs og ábyrgðar skuli vera og teljum við að framkomið frumvarp stríði gegn vilja löggjafans með setningu skipulagslaga 123/2010. Í frumvarpinu er lagt til að skipulagslögum sé kippt úr sambandi og að 3. gr. og 13. gr. laganna sé með öllu hunsuð. Útgáfa framkvæmdaleyfa og eftirlit með framkvæmdum líkt og kemur fram í 1. mgr. 13. gr. 123/2010 er á forræði sveitarfélaga.
Sveitarfélagið Vogar telur að með tillögu sinni vegi flutningsmenn frumvarpsins að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga í landinu. Með samþykkt frumvarpsins yrði gefið fordæmi um að hvenær sem er geti löggjafinn svipt sveitarfélög í landinu sjálfsákvörðunarrétti sínum í einstaka málum. Það er að okkar mati áhyggjuefni m.a. í ljósi eignarhalds ríkisins á stóru landsvæði í Sveitarfélaginu Vogum. Það veldur okkur hjá Sveitarfélaginu Vogum að auki áhyggjum að slík hugmynd komi fram, jafnvel áður en sveitarstjórnin hefur fengið ráðrúm til að afgreiða erindi Landsnets á formlegan hátt. Það er mat okkar að hagsmunir sveitarfélaga í landinu til sjálfsákvörðunar í sínum innri málum sé með frumvarpi þessu fórnað. Ekki verður hér fjallað sérstaklega um rökstuðning flutningsmanna sem fram kemur í greinargerð hvort sem litið er til mikilvægis raforkuflutninga eða með hvaða hætti raforkuflutningum er háttað. Grundvallarhugsun frumvarpsins snýr að fyrrnefndri verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga í landinu og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Við leggjumst því alfarið gegn því að frumvarp þetta verði samþykkt.“
Þessu til viðbótar skal upplýst að umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 er nú til umfjöllunar að nýju hjá sveitarstjórn. Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess að það fái ráðrúm til að fjalla efnislega um málið og komast að niðurstöðu.