Fordæma hraðakstur á Vesturbraut
Áhyggjufullir íbúar Reykjanesbæjar ræða málin á Facebook.
„Mig langar að vera smá leiðinleg en hvernig stendur á því að það eru ekki settar upp hraðahindranir á Vesturbrautina? Ég bý í einni götunni sem liggur að Vesturbraut og mikið afskaplega leiðist mér þessar spyrnur á bílum og mótorhjólum á þessari götu. T.d. í gærkveldi var ekki hægt að ræða saman í eldhúsinu fyrir einum bíl sem gjörsamlega sprengdi hljóðmúrinn!“ segir Hrönn Auður Gestsdóttir, íbúi í Reykjanesbæ, á Facebook síðunni Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri í gær. Hrönn bendir einnig á að fjöldi barna búi í hverfinu við Vesturbraut og einnig er leikskóli við þessa fjölförnu götu. Hún hafi, fyrir tíma Facebook, sent inn ábendingu til bæjaryfirvalda um að setja þar hraðahindranir en ekkert hafi verið gert.
Töluverð umræða varð í kjölfar innleggs Hrannar og nefnir einn íbúi, Hilmar Kári Hallbjörnsson, að hraðahindranir séu ekki besta lausnin, heldur eigi löggæsla að vera sýnilegri á þessu svæði auk þess sem hækka mætti sektir fyrir athæfi eins og þetta. Íslendingar eigi heimsmet í fjölda hraðahindrana á hvert bæjarfélag. Einhvern veginn takist nágrannalöndum að leysa svona mál án þess að nota til þess hraðahindranir. Enn annar íbúi lætur í ljós áhyggjur sínar af því að ekki verði gert fyrr en ekið verður á einhvern.
Í umræðunni á síðunni leggur Hilmar Kári að endingu til að löggæsla verði sýnilegri, hærri fjársektir við hraðakstri (hlutfallstala af launum), jafnvel eignaupptaka ökutækis (sbr. Kanada) aki menn of hratt. Einnig „Pappalöggur“ (eða öllu heldur myndir af börnum að leik), augljósari merkingar, t.d. stór (30) merki máluð á göturnar. Fyrst og fremst leggur hann til að þetta snúist fyrst og fremst um samfélagslega ábyrgð. Hægt væri að benda einstaklingum sem brjóta svona af sér á hvað þeir séu að gera rangt því oft sé um að ræða algjört hugsunarleysi.