Fölsuð skilríki og meðvitunarleysi í flugvél
Tveir einstaklingar sem höfðu framvísað breytifölsuðum skilríkjum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrradag voru handteknir og færðir á lögreglustöð í Keflavík. Daginn áður hafði lögreglan á Suðurnesjum handtekið einn einstakling sem einnig framvísaði ítölsku breytifölsuðu vegabréfi. Allir þrír voru á leiðinni til Kanada þegar þeir voru stöðvaðir í vegabréfaeftirliti.
Lenda þurfti flugvél frá pólska flugfélaginu LOT á Keflavíkurflugvelli í fyrrakvöld vegna veikinda farþega. Vélin var á leið frá Varsjá í Póllandi til Toronto í Kanada þegar farþeginn veiktist. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Þá þurfti að snúa flugvél, sem var á leið frá Keflavíkurflugvelli til Parísar, við vegna tveggja meðvitundarlausra farþega um borð. Þegar lögregla fór um borð kom í ljós að annar farþeganna var mjög ölvaður og grunur um að hann hefði innbyrt önnur efni. Hann fékk því ekki að halda ferð sinni áfram en var til öryggis fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hinn farþeginn var einnig fluttur á HSS.