„Fólk er farið að ganga hægar um gleðinnar dyr“
Staðan í efnahagsmálum landsins góð þó svo það sé farið að hægja á vexti
Hægari vöxtur og tímabundin meiri verðbólga en þó áframhaldandi viðskiptaafgangur er í spáspilum sérfræðinga Íslandsbanka en bankinn bauð fyrirtækjaeigendum á Suðurnesjum til fundar í Hljómahöll í gær.
Fjölmargir fulltrúar fyrirtækja á Suðurnesjum voru mættir til að hlýða á boðskap sérfræðinga bankans um efnahagsmálin og nýja þjóðhagsspá.
Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Íslandsbanka segir að krónan verði líklega sterk út áratuginn þó svo það megi eiga von á einhverjum sveiflum í henni á næstunni og geti veikst. „Sá gjaldeyrir sem hefur verið á leið út úr landinu skilar sér aftur til landsins á einhverjum tímapunkti og þá mun krónan styrkjast,“ sagði Jón og boðaði breytta tíma í hagkerfinu á Íslandi. Hann sagði væntingar almennt minni hjá fyrirtækjum og einstaklingum og væru í raun með því lægsta sem hefur mælst hefur í nokkuð langan tíma eftir að bjarsýni hafi verið ríkjandi út árið 2017. Það sjáist t.d. á einkaneyslu og greiðslukortanotkun. „Neysluhegðun er að breytast. Fólk er farið að ganga hægar um gleðinnar dyr en þrátt fyrir allt þá höfum við ágætar stoðir fyrir heimilin og vinnumarkaðurinn er sterkur.“ Hann sagði ferðaþjónustuna einnig áfram sterka og myndi bera uppi hagkerfið þó svo að vöxturinn væri ekki eins mikill og hann hefði verið.
Jón sagði að verðbólga myndi líklega fara hátt í 4% á næsta ári og það myndi skila sér í 3-4% hækkun á verðlagi en svo myndi verðbólga hjaðna þegar liði á árið. Þá ættu raunvextir einnig að lækka þegar hagkerfið kólnaði og mun meira jafnvægi væri komið á íbúða- og húsnæðismarkaðinn sem hefði verið áhyggu efni á sama tíma í fyrra.
Komandi kjarasamningar væru þó vissulega áhyggjuefni sem gætu haft áhrif á gang mála.
Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Keflavík var fundarstjóri og þá opnaði Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipabankans fundinn og fór aðeins yfir stöðu mála áður en Jón Bjarki kynnti þjóðhagsspá bankans.
Þá flutti Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar erindi um stöðu mála hjá félaginu og framtíðaráform.
Keflvíkingurinn Una Steinsdóttir er framkvæmdastjóri viðskiptabanka Íslandsbanka. Við hlið hennar er Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur bankans. VF-myndir/pket.