Fögnum og gerum Helguvík græna
– segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar
Kísilverksmiðja í Helguvík hefur skaðað samfélagið
Stóriðjudraumar þar hafa kostað Reykjanesbæ fjóra milljarða króna
„Við fögnum þessari ákvörðun Arion banka. Þetta verkefni hefur skaðað samfélagið í Reykjanesbæ verulega mikið og þá hefur bæjarfélagið þurft að afskrifa um fjóra milljarða króna vegna stóriðjudrauma í Helguvík á síðustu árum,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanebsæjar, en Arion banki, eigandi Stakksbergs, félags utan um kísilverksmiðju United Silicon, telur litlar líkur á því að kísilverksmiðjan í Helguvík fari í gang aftur.
Á uppgjörsfundi bankans í síðustu viku kom fram að hann teldi áhugavert að sjá aðra og grænni starfsemi eiga sér stað þar í framtíðinni. Friðjón tekur undir það. „Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur margoft lýst því yfir að við viljum ekki kísilver svona nálægt byggð. Meirihlutinn stefnir á heilbrigða og græna atvinnustarfsemi í Helguvík. Við viljum minnka mengun og auka græna starfsemi. Við erum nú þegar í viðræðum við aðila í fiskeldi og fleiri fyrirtæki sem við munum kynna síðar,“ segir Friðjón.
Stakksberg ehf., félag utan um kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, er nú metið á 1,6 milljarða króna í bókum Arion banka en var 6,9 milljarðar kr. í lok mars 2019. Starfsemi í verksmiðjunni hætti í september 2017 og félagið sem rak hana fór í þrot í janúar 2018.
Mikil andstaða hefur verið gagnvart starfseminni meðal bæjarbúa og eins bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ. Bæjarstjórn hefur það í hendi sér að hafna eða samþykkja tillögu að deiliskipulagi og þannig í raun hefur framtíð verksmiðjunnar í höndum sér.
„Við erum bara mjög glöð með þessa stöðu. Tími mengandi stóriðju í Helguvík er liðinn,“ sagði Friðjón.