Fnykvaldurinn ekki með starfsleyfi
Ólyktin sem barst yfir Sandgerði í gær og fyrradag kom frá fullu kari af úldnu slógi, sem skilið var eftir á planinu við fyrirtækið Íslensk Sjávartækni nú um helgina, skv. því er vefurinn 245.is í Sandgerði greinir frá. Eins og komið hefur fram lagði megna ýldufýlu yfir bæinn í gær við litla hrifningu bæjarbúa. Fyrirtækið er ekki með starfsfsleyfi samkvæmt því sem fram kemur á vefnum.
Rekstur fyrirtækisins var stöðvaður í janúar síðastliðnum þar sem reglum var ekki framfylgt, segir á vef 245.is. Haft er eftir Ríharði Friðrikssyni í umhverfisdeild Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að hann hafi farið á staðinn og séð að fyrirtækið væri í fullum gangi þrátt fyrir það. Hann sé nú að vinna í málinu.
Greint er frá því að kör hafi verið skilin eftir fyrir utan fyrirtækið við Hafnargötu 4 á öllum tímum. Þegar starfsmenn mæti til vinnu á mánudegi bíði stundum 1-2 kör troðfull af slógi, en slóg er samanbland af fiskigörnum, lifur, hrognum og innyflum úr fiskum.
Í grein sem Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri, skrifar á vefinn segir að sveitarstjórnarmenn og íbúar séu orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi og úrræðaleysi er varðar ólykt af þessu tagi og er Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hvatt til átaka og aðgerða.
---
Mynd/www.245.is – Karið sem olli ýldufýlunni.